Auglýsa íslandsferðir með eldgosi á Times Square

20.04.2021 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: Icelandair - RÚV
Flennistór auglýsing Icelandair í New York hefur vakið mikla athygli. Hún þekur um níu hæðir húshorns á Times Square og sýnir eldgosið í Geldingadölum í öllu sínu veldi.

Eldgos handan við hornið

Á Facebook-síðu Icelandair segir að þannig færi flugfélagið heiminum andblæ Íslands og New York-búum það heitasta sem landið hafi upp á að bjóða í augnablikinu. Áhorfendur eru hvattir til að vera tilbúnir, því eldgosið sé rétt handan við hornið. 

Íslandsstofa markaðsetur gosið

Skömmu eftir að byrjaði að gjósa í Geldingadölum hófst Íslandsstofa handa við að markaðssetja gosið fyrir erlenda ferðamenn. Samkvæmt talningu Íslandsstofu sem birt var fyrr í þessum mánuði hafa verið skrifaðar yfir 11.000 greinar um gosið í erlendum miðlum. Þá fór Íslandsstofa í samstarf við bandaríska ljósmyndarann og kvikmyndagerðarmanninn Chris Burkard sem birti myndir og myndskeið af eldgosinu á Instagram-síðu sinni. Burkard er með 3,6 milljón fylgjendur á Instagram.

Auglýsing Icelandair