Yfir 50 dauðar gæsir við Hvalnes og í Suðurfjörum

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands/S - RÚV
Náttúrustofa Suðausturlands fékk tilkynningu um helgina um nokkurn fjölda dauðra gæsa og álfta við Hvalnes í Lóni og í Suðurfjörum. Ekki er vitað hvað dró fuglana til dauða.

Náttúrustofan tilkynnti um fulgadauðan til Matvælastofnunar og að sögn Þorsteins Bergssonar, dýraeftirlitsmanns á Austurlandi var reynt að bregðast hratt við, enda óttast menn útbreiðslu fuglaflensu sem hefur gert vart við sig víða í Evrópu undanfarna mánuði. Fréttastofa náði tali af Þorsteini þar sem hann var við sýnatöku í Hvalnesi, en þar var lítið eftir af hræjunum.

„Hér hafa greinilega verið þó nokkuð margir fuglar, en þeir eru allir uppétnir,“ sagði Þorsteinn. Greinilegt er að hrafninn og frændur hans hafa notið góðs af dauða fuglanna. Það er ekki til að minnka áhyggjur manna af því að ef fuglarnir hafa reynst smitaðir geti það borist áfram með öðrum fuglum. 

Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands segir í samtali við fréttastofu að samkvæmt ábendingunni sem þeim barst hafi fuglarnir verið 53 talsins. Þorsteinn segir það trúlegt miðað við hræin sem hann sá við Hvalnes. Ekki sé unnt að taka sýni úr fuglunum þar sem of lítið sé eftir af þeim nema beingarðurinn. Til að geta tekið sýni fyrir fuglaflensu þarf að taka sýni úr hálsi eða endaþarmi fuglanna. Hann segir að af bleikum fótum beinagrindanna að dæma séu þetta aðallega heiðagæsir.

Þorsteinn segist vera á leið í Suðurfjörur til að kanna aðstæður þar og reyna að taka sýni úr hræjunum þar. Mikill fjöldi farfugla er á leið til landsins þessa dagana, enda vor á næsta leiti. Ekki er víst hvort að fuglarnir hafi örmagnast við ferðalagið eða hvort að þeir hafi haft hér vetrarsetu. 

Samkvæmt Matvælastofnun eru miklar líkur á að fuglaflensan berist hingað til lands og afleiðingar smits á stórum alifuglabúum eru mjög alvarlegar. Lítil hætta er talin á að smit berist í fólk en þó beinir Matvælastofnun því til fuglaeigenda að gæta smitvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum. Fólki er ráðið frá því að taka upp hræ sem kann að verða á vegi þess og mikilvægt er að tilkynna um hræ fugla sem ekki hafa drepist vegna slysa úti í náttúrunni. 

Matvælastofnun hækkaði viðbúnaðarstig sitt vegna fuglaflensu í seinasta mánuði. Berist smit inn á alifuglabú þarf að skera niður allan bústofn og takmarka starfsemi á stóru svæði ef smit kemur upp. 

Rétt er að taka fram að enn sem komið er er ekkert sem bendir til þess að fuglarnir séu smitaðir, en Matvælastofnun tekur mál sem þessi alvarlega.