UEFA samþykkir breytt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

UEFA samþykkir breytt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar

19.04.2021 - 14:35
Framkvæmdastjórn UEFA samþykkti í dag breytt fyrirkomulag í Meistaradeild Evrópu frá 2024. Liðunum verður fjölgað, úr 32 í 36, og þá verður ekki lengur spilað í átta mismunandi riðlum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UEFA í dag. 

Í stað riðlakeppninnar munu liðin öll spila í einni deild. Þá munu liðin leika að minnsta kosti 10 leiki hvert gegn 10 mismunandi liðum, fimm útileiki og fimm heimaleiki, í stað þess að spila í fjögurra liða riðlum þar sem liðin fá sex leiki, þrjá heimaleiki og þrjá útileiki.

Þau lið sem enda í átta efstu sætunum að loknum leikjunum tíu komast áfram í útsláttarkeppnina. Þau lið sem eru í sætum 9.-24. mætast þá tvö og tvö, heima og að heiman, og þau lið sem hafa betur í einvíginu fara áfram í útsláttarkeppnina. Þau lið sem sitja eftir fara í Evrópudeildina.

Fyrirkomulagið verður svipað í Evrópudeildinni en þó hefur ekki verið ákveðið að fjölga liðum þar.