Svíþjóð: Fimm konumorð á innan við þremur vikum

19.04.2021 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Fimm konur hafa verið myrtar í Svíþjóð á innan við þremur vikum. Grunaðir morðingjar eru í flestum tilfellanna karlmenn sem flestir höfðu átt í einhvers konar sambandi eða samskiptum við konurnar voru myrtar. Morðin hafa vakið athygli og reiði í Svíþjóð og leitt til mikilla umræðna um ofbeldi á konum og viðbragða í heimi stjórnmálanna, segir í frétt SVT sem birti í gær samantekt á þeim fimm málum sem upp hafa komið frá 30. mars, þar sem karlar eru grunaðir um að hafa myrt konur
  • Tilkynnt var 30. mars að 18 ára stúlku væri saknað í smábænum Höör á Skáni. Hún fannst látin skömmu síðar og ungur maður, kunningi hinnar myrtu, var handtekinn sama dag grunaður um morðið. Hann hefur viðurkennt að hafa orðið stúlkunni að bana en segir að það hafi verið óviljaverk og neitar því sök. Morðvopnið er að líkindum fundið. 
  • Laugardaginn 3. apríl var lögreglan kvödd í íbúð í bænum Huddinge utan við Stokkhólm. Þar inni var alvarlega særð kona sem flutt var í hasti á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum. Karlmaður, sem vitað er að hin látna tengdist með einhverjum hætti, var handtekinn á vettvangi grunaður um morðið.
  • Fimmtudaginn 15. apríl réðst maður á konu við brautarstöðina í Linköping í Austur-Gautlandi og veitti henni fjölda alvarlegra sára. Konan var flutt á sjúkrahús en ekki reyndist unnt að bjarga lífi hennar. Árásarmaðurinn, sem hafði verið í sambandi við hina myrtu, var handekinn nærri vettvangi. 
  • Að kvöldi 16. apríl var lögregla kölluð til vegna andláts ungrar konu í fjölbýlishúsi í Älta-hverfinu í Stokkhólmi. Rökstuddur grunur vaknaði um að dauða hennar mætti rekja til ofbeldisverks og var hálfþrítugur karlmaður handtekinn á vettvangi, grunaður um verknaðinn. Grunurinn reyndist á rökum reistur og er málið rannsakað sem morð. Konan sem var myrt og hinn grunaði munu hafa þekkst. 
  • 17. apríl réðst hálffertugur karlmaður á konu um hábjartan dag í miðbæ smábæjarins Alvesta í Smálöndunum. Konan lést á staðnum. Hinn grunaði var handtekinn skömmu síðar í íbúð nærri vettvangi morðsins. Ekki er vitað hvort og þá hver tengsl morðingjans og fórnarlambs hans eru. 

Í frétt SVT af konumorðunum fimm má finna hlekki á fréttir um hvert mál fyrir sig. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV