Símalínurnar glóðu þegar gosið hófst fyrir einum mánuði

Eldgos hófst Fagradalsfjalli 19. mars 2021.
Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Símalínur fréttastofunnar voru rauðglóandi föstudagskvöldið 19. mars. Símtölin bárust flest úr úthverfum höfuðborgarsvæðisins og úr Hafnarfirði og fólki lá á að láta vita af rauðum bjarma sem sást á himni ofan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga.

Bjarminn barst frá nýhöfnu eldgosi í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Vísindamönnum þótti eldgosið ræfilslegt þegar þeir flugu yfir það þá um nóttina. Næstu daga á eftir kom hins vegar í ljós hversu merkilegt þetta eldgos er.

Í dag er mánuður síðan eldgosið við Fagradalsfjall hófst. Þá um nóttina sendi Fréttastofa RÚV út aukafréttatíma í sjónvarpi.

Mynd: RÚV / RÚV
Aukafréttatími fór í loftið síðla kvölds 19. mars 2021

Gosið er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn í um 800 ár sem hraun rennur á Reykjanesskaga. Og það er enn lengra síðan það gaus síðast í eldkerfi Fagradalsfjalls, einu af virkum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Síðast gaus þar fyrir um 6.000 árum.

Eldgosið er talið geta staðið í langan tíma, jafnvel fjölda ára. Fljótlega var farið að draga líkindi milli þessa goss og Kröfluelda sem hófust 1975. (Fyrir þá sem þurfa að rifja Kröfluelda upp þá er hér góð samantekt Ragnhildar Thorlacius í Speglinum.)

Kvikan sem streymir upp á yfirborðið kemur beint úr möttli, tugi kílómetra undir yfirborðinu og hefur ekki viðkomu í kvikuhólfi eins og í helstu þekktu eldstöðvunum á Íslandi.

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Frétt Þórdísar Arnljótsdóttur um uppruna kvikunnar.

Jörð hafði skolfið og skjálftavirknin færst í aukana vikurnar áður en kvikan braut sér leið upp á yfirborðið fyrir mánuði síðan. Vísindamenn höfðu kortlagt kvikugang undir yfirborðinu, þar sem kvika var að reyna að brjóta sér leið í sprungum. Kvikugangurinn stækkaði fyrst til suðurs áður en kvikan fann sér leið upp á yfirborð beint upp úr kvikuganginum.

Nokkrir nýir gígar hafa myndast síðan gosið hófst þó enn gjósi úr upprunalega gígnum.

Gossvæðið er síbreytilegt. Nýtt hraun þekur nú botn Geldingadala og er farið að renna í Meradali í norðaustri. Nýir óbrennishólmar hafa orðið til úr hólum og hæðum sem afmörkuðu dalina sem eldurinn fyllir.

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Sjónvarpsfrétt um nýjan gíg og breytt landslag 17. apríl 2021

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði í dag að það sé merkilegt við eldgosið að það virðist heldur vera að færast í aukana. Síðustu tíu daga var rennsli úr eldstöðinni meira en dagana tíu þar á undan. Flest gos hegða sér á hinn veginn og úr þeim dregur með tímanum.

Vinsæll áfangastaður

Þegar gosið hófst varð til glænýr áfangastaður í náttúru Íslands. Það varð örtröð á þjóðvegum við Fagradalsfjall fyrstu dagana þegar fólk flykktist að til þess að berja eldgosið augum og mynda það í bak og fyrir með ljósmyndavélum, snjallsímum eða drónum.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Sjónvarpsfrétt frá 21. mars 2021.

Björgunarsveitir hafa staðið vörð við gosið og aðstoðað göngufólk og leiðbeint fólki hvar hættur kunna að leynast. Gönguleiðir að eldgosinu voru fljótlega stikaðar til þess að vernda náttúruna og beina fólki rétta leið. Bílastæði voru skipulögð við Ísólfsskála og á Festarfjalli til þess að hægt væri að greiða úr umferðarteppunni sem myndaðist í upphafi.

Og það varð einhverskonar þjóðhátíðarstemmning við gosstöðvarnar þegar fólk sat í brekkunni og virti undrið fyrir sér og nýtt land verða til. Tónlistarmenn komu með hljóðfærin sín og sungu með fólkinu, og heimsfrægar hljómsveitir tóku upp tónlistarmyndbönd við nýútkomin lög með eldgosið í baksýn.

Markaðsmenn voru líka fljótir á vagninn, hvort sem það var til þess að markaðssetja ferðaþjónustu hér á landi og Ísland sem áfangastað, eða hinar ýmsu vörur, óþarfa eða þarfaþing.

Og svo voru það Sumarliði og Jón Örvar sem giftu sig við eldgosið. Ætli það geti ekki verið altari eins og hvað annað.

19.04.2021 - 13:50