Sex þjálfarar hjá Víkingi í sóttkví

19.04.2021 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Sex þjálfarar hjá Víkingi eru komnir í sóttkví, þar af tveir vegna beinna tengsla við einstakling af leikskólanum Jörfa. Þetta kemur fram í færslu frá félaginu á Facebook. Ekkert smit hafi greinst innan félagsins.

Hinir fjórir séu starfsmenn skóla eða frístundaheimila í hverfinu og hafi verið sendir í sóttkví af yfirmönnum sínum til að gæta fyllsta öryggis. 

Eftir samráð við smitrakningarteymið hafi verið ákveðið að ekki væri ástæða til að loka Víkinni frekar en öðrum skólum eða leikskólum í hverfinu. Æfingar haldi því áfram en án aðgengis að búningsklefum. Félagið sýni því þó skilning ef foreldrar vilji halda börnum sínum heima næstu daga. 

Félagið hefur hins vegar ákveðið að fella niður allan rútuakstur þessa vikuna vegna þess að þar blandist barnahópurinn. Félagið brýnir að lokum fyrir foreldrum að senda börn ekki á æfingar ef þau sýna minnstu einkenni og panta tíma í skimun.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV