Rúmir 11 dagar í litakóðunarkefið - unnið að útfærslu

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Það ræðst í þessari viku hvort og hvernig litakóðunarkerfi taki gildi á landamærunum um mánaðamót. Forsætisráðherra segir að unnið sé að útfærslu á kerfinu. Píratar vilja að fallið verði frá því að taka upp litakóðunarkerfið. Forsætisráðherra segir að ekkert verði ákveðið sem stangist á við ástandið hér heima eða erlendis.

Þingmaður Pírata benti á það í umræðum á Alþingi í dag nokkrir dagar eru þangað til litakóðunarkerfi tekur gildi á landamærunum eða rúmir ellefu dagar. Kerfið snýst um að lönd fá grænan lit ef lítið er um smit þar en rauðan lit ef mikið er um smit. Þeir sem koma frá grænum og gulum löndum sleppa við fimm daga sóttkví og dugir að þeir framvísi neikvæðu COVID-vottorði og greinist neikvæðir í sýnatöku við komuna til landsins. Píratar eru mótfallnir því að litakóðunarkerfð taki gildi.

„Ríkisstjórnin hefur ekki náð að sannfæra almenning um öryggi þessara aðgerða. Réttast væri bara þá að falla frá þeim og bjóða ekki hættunni heim. Við verðum að tryggja frelsi hér innanlands fram yfir frelsi á landamærunum,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.

„Eins og fram hefur komið þá erum við í raun og veru að skoða hvaða útfærslur eru mögulegar á landamærum. Við höfum sagt það frá upphafi að allar þær aðgerðir muni þurfa að taka mið af stöðu faraldursins hér heima sem er auðvitað önnur núna en hún var fyrir örskammri stund, sem og stöðunni erlendis. Við auðvitað erum að horfa á það að við munum útfæra þetta þannig að við í rauninni leggjum okkar eigið áhættumat á mat Evrópusambandsins. Því það skiptir máli að við leggjum okkar sjálfstæða mat á það. Þannig að það er enn unnið að þessari útfærslu. Eins og ég hef ítrekað sagt þá erum við ekki að taka ákvarðanir sem stangast á við ástandið hér heima eða erlendis,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hvenær munið þið ljúka ykkar yfirferð um þetta mál?

„Ja, við erum að vinna að þessu í þessari viku. Þannig að línur munu skýrast í henni,“ segir Katrín.