Ræktanda gert að afhenda hund eftir pössun

19.04.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness hefur gert ræktanda að afhenda viðskiptavini sínum hund sem hann var með í pössun. Ræktandinn neitaði að afhenda hundinn aftur þar sem hann taldi að eigandinn væri ekki hæfur til að hugsa um dýrið. Ræktandinn reyndi að fá úrskurði héraðsdóms hnekkt fyrir Landsrétti en án árangurs.

Ekki kemur fram hvers konur hundur þetta er en eigandinn greiddi fyrir hann 240 þúsund krónur í reiðufé. 

Tíu dögum seinna fótbrotnaði hundurinn og á sama tíma gekk hinn nýi eigandi í gegnum sambandserfiðleika. Hún þurfti að leita sér læknisaðstoðar í október og hundurinn varð eftir hjá sambýlismanninum. 

Í stað þess að hugsa um hundinn sjálfur ákvað sambýlismaðurinn að leita til ræktandans og fá hann til að passa hundinn. Það virðist hafa verið gert í óþökk sambýliskonunnar því hún brást illa við þessari ráðagerð. Hún hafði samband við ræktandann, þakkaði henni fyrir pössunina og vildi fá hundinn sinn aftur.

Ræktandinn neitaði hins vegar að láta dýrið af hendi þar sem konan væri ekki hæf til að hugsa um það.  Og þar lá hundurinn grafinn.

Konan sagði í stefnu sinni að fullyrðingar ræktandans um að hún annaðist hundinn illa væru tilhæfulausar og órökstuddar.  Hún ætti að fá hundinn sinn aftur og það strax.

Ræktandinn krafðist þess að málinu yrði vísað frá þar sem konan hefði þegar kært hann til lögreglu fyrir að stela dýrinu. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að ekki sé vitað um afdrif þeirrar kæru.

Þá sagði ræktandinn að það yrði verulega ámælisvert ef honum yrði gert að afhenda hundinn. Hann hefði rætt við dýralækni sem væri honum sammála.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að konan væri ótvíræður eigandi hundsins og að hún hefði efnt kaupsamninginn að fullu. Var því fallist á kröfu hennar um að heimilt væri með beinni aðfaragerð að ná í dýrið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV