„Óþægilegt“ að fá hópsmit í hverfið

Mynd með færslu
 Mynd: Réttarholtsskóli
Forsvarsmenn grunnskóla í grennd við leikskólann Jörfa og Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar sendu tölvupóst í gær og óskuðu eftir því að nemendur sem ættu systkini á Jörfa héldu sig heima. Þá var skerpt á því að allir sem fyndu fyrir minnstu einkennum kæmu ekki í skólann í dag. Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segist ánægður með viðbrögð yfirvalda við hópsýkingunni í hverfinu en að hann vildi sjá meiri áherslu á loftræstingu á fjölmennum stöðum. 

 

„Ég horfi sérstaklega til vinnustaða þar sem eru margir í rýmum,  sem eru mögulega þá lokuð og menn gleyma að opna glugga. Af því ef það er einstaklingur orðinn veikur og smitar aðra þá fyllist rýmið mjög fljótt af litlum vatnsdropum sem koma í útöndunarloftinu frá þeim. Það er eitthvað sem er auðvelt að koma í veg fyrir með góðri loftræstingu. Opna glugga og ræsta í gegn. Mér finnst þetta aðeins hafa vantað þrátt fyrir að yfirvöld hafa bent á þetta þá er þetta ekki á pari við aðrar leiðir sem hefur verið bent á.“

Óþægilegt en viðbrögðin góð

Jón Pétur segir að vissulega sé óþægilegt að fá svona stóra hópsýkingu upp í hverfinu en að yfirvöld hafi brugðist vel við og sett stóran hóp í kringum smitin í sóttkví. 

Ítrekað hefur verið við nemendur og foreldra þeirra að allir með einkenni skyldu vera heima. Jón Pétur segir að aðeins fleiri en venjulega hafi verið skráðir veikir í dag. „Það er aðeins svona aukin skráning á þannig veikindum heima hjá okkur. Það eru nokkrir krakkar sem eiga síðan systkini á Jörfa og þau eru þá í sóttkví.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV