Níu ráðgjafar ráðnir til viðbótar vegna söluferlisins

19.04.2021 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bankasýsla ríkisins hefur ráðið níu söluráðgjafa til viðbótar vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Arion banki hf., Arctica Finance hf., Barclays Bank Ireland PLC, Fossar Markets hf., HSBC Continental Europe, Íslensk verðbréf hf., Íslenskir Fjárfestar hf., Kvika banki hf. og Landsbankinn hf. voru valin úr hópi 24 fyrirtækja sem skiluðu inn áhugayfirlýsingum til að verða söluráðgjafar.

Bankasýsla ríkisins og Íslandsbanki höfðu þegar ráðið BBA Fjeldco ehf. og White Case LLP. sem lögfræðiráðgjafa og Citigroup Global Markets Europe AG, J.P. Morgan AG og STJ Advisors Group Limited sem söluráðgjafa. Ekki er gert ráð fyrir frekari ráðningum vegna sölunnar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sagt að líklega verði hægt að auglýsa hlutinn til sölu strax í byrjun júní. Bankasýsla ríkisins lagði til í desember að ríkið seldi fjórðungshlut í Íslandsbanka, og gerði þá ráð fyrir að hægt yrði að opna fyrir útboð fimm mánuðum síðar. Meirihlutar efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar þingsins lögðu svo til að 25-35 prósent af hlutafé bankans yrðu boðin til sölu.

Skrá á hlutinn allan á markað hérlendis og þingnefndameirihlutarnir lögðu til að það yrði tryggt að enginn gæti átt meira en tvö og hálft til þrjú prósent í bankanum. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt söluáformin og meðal annars spurt hvort þingkosningarnar í haust ráði því að til standi að selja núna.