Minnst sex leikskólabörn á Jörfa greindust smituð í gær

19.04.2021 - 09:28
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Minnst fimm starfsmenn og sex börn í leikskólanum Jörfa í Reykjavík greindust með kórónuveiruna í gær. Alls eru því að minnsta kosti fimmtán starfsmenn smitaðir og sjö börn. Tveir starfsmenn eru „talsvert veikir,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

„Þetta var í gærkvöldi og ég býst við að það eigi eftir að fjölga í hópi smitaðra,“ segir Helgi. Hann telur líklegt að búið sé að skima alla starfsmenn leikskólans en segir ekki liggja fyrir hvort búið sé að skima alla foreldra.

„Við erum mjög vakandi yfir þessu og öllum tengingum, bæði inn í Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Það er verið að reyna eins og kostur er að koma fólki í skimun og sóttkví ef tengslin eru þannig,“ segir Helgi.

Aðspurður hvort það komi til greina að loka skólum nálægt Jörfa segir hann: „Það hefur ekki komið til tals en það ræðst mjög mikið af því hvernig smitin þróast.“

Starfsmaðurinn á leikskólanum Jörfa, sem fyrst greindist smitaður á fimmtudag, er talinn hafa smitast við störf sín innan leikskólans en ekki borið smit inn í skólann.

Rúmlega 20 smit greindust innanlands í gær. „Þetta er stór hópsýking og hún getur hæglega breiðst út og orðið miklu stærri,“ sagði Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID-19 göngudeildar Landspítalans, í Morgunútvarpinu á Rás 2.