Mikil óvissa um þróun efnahagsmála

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikil óvissa ríkir um þróun efnahagsmála hér á landi að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gera má ráð fyrir að það taki ferðaþjónustuna töluverðan tíma að ná fyrri styrk. Ný veiruafbrigði gætu hins vegar haft áhrif á bólusetningar og mögulegt hjarðónæmi.

 

Þetta kemur fram í árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi. Að mati sjóðsins var Ísland í góðri stöðu fyrir Covid faraldurinn og það veitti stjórnvöldum svigrúm til að takast á við efnahagslegar afleiðingar hans.

Sjóðurinn gerir ráð fyrir hóflegum efnahagsbata á þessu ári og að hann verði enn meiri á því næsta. Óvissuþættirnir séu hins vegar margir og þar ráði þróun faraldursins miklu.

Búist er við að það taki ferðaþjónustuna töluverðan tíma að ná aftur fyrri styrk og að tekjur greinarinnar á þessu ári verði takmarkaðar. Ef bólusetningar ganga vel gæti það leitt til hjarðónæmis fyrr en vonir stóðu til og það myndi ýta undir aukinn ferðamannastraum hingað til lands. Þetta gæti þó breyst til hins verra ef ný veiruafbrigði koma fram og faraldurinn blossar upp að nýju.

Að mati sjóðsins er því mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við heimili og atvinnulíf til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum faraldursins.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV