Katrín um brot á sóttkví: „Algjörlega óásættanlegt“

19.04.2021 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist reiðubúin að skoða breytingar á lögum til að styrkja sóttvarnaráðstafanir á landamærunum . Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar kallaði við upphaf þingfundar í dag eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við því hópsmiti sem nú er í gangi en það er rakið til einstaklings sem ekki virti reglur um heimasóttkví eftir komuna til landsins.

Logi sagði að Samfylkingin væri tilbúin að leggja fram frumvarp sem heimilar ráðherra að skylda fólk sem kemur til landsins til að fara í sóttvarnahús.

„Við þurfum ekki að rifja upp atburðarásina í kringum reglugerð ráðherra sem var dæmd ólögmæt. Í henni var gert ráð fyrir að skylda komufólk frá ákveðnum svæðum í nokkurra daga dvöl í sóttvarnahúsi. Í kjölfar dómsins féll ríkisstjórnin frá þessum áformum sínum á landamærunum. Og virðist gæta mikillar sundrungar innan hennar um aðgerðir, þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra um annað,“ sagði Logi.

Katrín Jakobsdóttir sagði að umrætt brot hefði átt sér stað áður en núverandi reglugerð tók gildi og því hafi ekki reynt á hana í þessu tilviki.

„Það sem ég hef hins vegar sagt og sömuleiðis hæstvirtur heilbrigðisráðherra, ef við metum að það sé ekki fullnægjandi þá erum við að sjálfsögðu reiðubúin að skoða breytingar á lögunum þannig að það sé unnt að tryggja það sem best að svona atvik endurtaki sig ekki. Það er auðvitað mikill skaði sem verður af einu svona broti og algjörlega óásættanlegt hversu miklum skaða slík brot geta valdið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.