Húsvíkingar vígðu rauðan dregil í anda Hollywood

19.04.2021 - 13:53
Mikil stemning er á Húsavík vegna Óskarsverðlaunahátíðarinnar.
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Segja má að sannkallað Óskars-æði hafi nú gripið um sig á Húsavík. Seint í gærkvöldi lauk tökum á myndbandi við lagið Husavik – My Home Town úr myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem tilnefnt til Óskarsverðlauna. Þá var rauður dregill vígður í bænum í dag við hátíðlega athöfn.

Óskar Óskarsson klippti á borðann

Húsavíkurstofa sótti nýverið um leyfi til byggðarráðs Norðurþings um að setja upp rauðan dregil í miðbæ Húsavíkur í tengslum við Óskarsverðlaunahátíðina sem fram fer í lok apríl. Óskar Óskarsson, skáldsagnapersónan sem slegið hefur í gegn í myndböndum sem framleidd hafa verið í tengslum við tilnefninguna, klippti á borðann í hádeginu í dag. Það er Sigurður Illugason sem fer með hlutverk Óskars.

Bæjarstjórinn spenntur

Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri í Norðurþingi, reiknar með að Húsvíkingar fylgist vel með Óskarnum í ár. „Við erum að reyna að líkja eftir því þegar rauði dregillinn verður opnaður í Hollywood á sunnudaginn. Ég reikna með að allir Húsvíkingar muni fylgjast spenntir með þegar stúlknakórinn okkar syngur lagið með henni Molly Sandén,“ segir Kristján. 

Tökur á myndbandinu stóð fram á kvöld

Tökum á myndbandinu lauk seint í gærkvöldi en það var að mestu leyti tekið upp á Húsavíkurhöfn. Fjölmargir heimamenn tóku þátt í verkefninu, þar á meðal 17 stúlkur úr stúlknakór Borgarhólsskóla. Myndbandið verður flutt á Óskarsverðlaunahátíðinni í Hollywood 26. apríl. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Frá vígslunni í dag
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
„Óskar for Húsavík“