Halla Hrund skipuð orkumálastjóri

19.04.2021 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands - RÚV
Halla Hrund Logadóttir hefur verið skipuð orkumálastjóri til næstu fimm ára. Alls sóttust 15 eftir embættinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, boðaði fimm þeirra til viðtals og mat Höllu hæfasta.

Í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að Halla Hrund taki við embættinu 19. júní. 

Hún er með BA gráðu í stjórnmálafræði, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard Háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál.

Halla Hrund hefur starfað frá árinu 2017 sem meðstofnandi og framkvæmdastjóri við miðstöð norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard háskóla og kennir á meistarastigi við sömu stofnun. Hún hefur setið í stjórn Orkusjóðs frá árinu 2015 og kennt námskeið í Háskólanum í Reykjavík.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV