Hádegisfréttir: Ekki gripið til hertra aðgerða

19.04.2021 - 12:06
Alls greindust 27 kórónuveirusmit innanlands í gær en ekkert við landamærin. Sóttvarnalæknir segir að ekki verði gripið til harðari sóttvarnareglna að svo stöddu. 

Það er mikil gleði og fagnaðarfundir á flugvöllum í Nýja-Sjálandi og Ástralíu í dag. Fólk getur nú ferðast á milli landanna tveggja án takmarkana í fyrsta sinn í meira en ár. 

Aðstæður eru slæmar fyrir þau sem vilja fara að gosinu í Geldingadölum í dag en það skánar á morgun. 

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny hefur verið fluttur úr fangelsi á spítala. Hann hefur verið í hungurverkfalli í tuttugu daga og læknar segja hann í hættu á að fá hjartaáfall eða nýrnabilun. 

Fyrstu skrefin í átt að framleiðslu í kísilveri PCC á Bakka verða tekin á morgun þegar fyrsti ofninn verður keyrður af stað. Tíu mánuðir eru síðan tilkynnt var um lokun á verksmiðjunni og áttatíu manns var sagt upp störfum.

Knattspyrnuheimurinn í Evrópu nötrar eftir að tólf stærstu félagslið álfunnar staðfestu í gærkvöld áform sín um stofnun Ofurdeildar Evrópu. UEFA og FIFA hafa hótað róttækum aðgerðum til að sporna við þróuninni. 
 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV