Fá mun minna fyrir bannhús en ónýt hús á Seyðisfirði

19.04.2021 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Seyðfirðingar sem ekki mega búa í húsum sínum vegna skriðuhættu þurfa að sætta sig við að fá markaðsverð fyrir húsin, sem er lágt á Seyðisfirði. Þeir sem eiga hús sem eyðilögðust fá hins vegar mun hærri bætur sem eiga að duga til að byggja sambærileg hús. Þetta ósamræmi er talið óheppilegt og geta falið í sér mismunun.

Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði í desember fékk Náttúruhamfaratrygging 90 tilkynningar um tjón. Bæði vegna lausafjár og innbús og tjóns á húsum. Uppgjöri er lokið á 92% tjóna. Svokallað altjón varð á 13 húsum og Náttúrhamfartrygging áætlar að greiða 930 milljónir króna í bætur. 

Þeir sem misstu húsin sín fá greitt samkvæmt brunabótamati sem á að duga til að byggja sambærilegt hús á sama stað. Allt önnur lög og reglur gilda um þá sem eru neyddir til að flytja úr heilum húsum sem standa á bannsvæði vegna skriðuhættu. Um slíkt gilda lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og samkvæmt þeim kaupir sveitarfélagið húsin á svokölluðu staðgreiðslumarkaðsverði húseigna í sveitarfélaginu og fær til þess 90% styrk frá Ofanflóðasjóði. Þetta á við um fjögur hús á Seyðisfirði og í þeim eru sex íbúðir. Vandamálið er að markaðsverð húsa á Seyðisfirði er lágt, ekkert er til sölu og bæturnar duga ekki til að byggja nýtt. Sveitarfélagið Múlaþing hefur látið matsmenn meta verðmæti húsanna, Ofanflóðasjóður samþykkt matið en íbúar gera athugasemdir. Dæmi eru um að mat á húsum nái ekki einu sinni fasteignamati og eru eigendur afar ósáttir.

Ljóst er þeir sem missa hús sín vegna banns við að búa í þeim fá minni bætur en þeir sem misstu húsin sín vegna altjóns. Sveitarfélagið hefur bent stjórnvöldum á þetta ósamræmi. Reyndar er spurning hvort talsvert hærra markaðsverð á húsum á Egilsstöðum gæti rétt hlut húseigenda. Í lögunum er talað um markaðsverð húsa í sveitarfélaginu ekki viðkomandi þorpi og hafa íbúar knúið á um að það verði til hækkunar. 

Þá vekur athygli að í reglugerð um ofanflóðasjóð virðist atvinnuhúsnæði sem lendir á bannsvæði undanskilið frá uppkaupum. Jafnvel þrátt fyrir að tryggingariðgjald til ofanflóðasjóðs sé greitt af slíku húsnæði.

í 5. grein reglugerðarinnar segir: „Ofanflóðasjóði er heimilt að greiða viðkomandi sveitarfélagi allt að 90% af kostnaði við hönnun, undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki, kaup á lóðum vegna varnarvirkja og húseignum (íbúðarhúsum) og kostnaði við flutning húseigna."