Eiríkur og Sigríður leiða lista Viðreisnar í Norðaustur

Mynd með færslu
 Mynd: Viðreisn
Eiríkur Björn Björgvinsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, verður efsti maður á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Í öðru sæti verður Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi.

Eiríkur, sem er íþróttafræðingur að mennt, var bæjarstjóri á Akureyri frá 2010 til 2018. Hann var áður bæjarstjóri Austur-Héraðs og Fljótsdalshéraðs sem varð til eftir sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi. 

Sigríður hefur rekið eigið ráðgjafafyrirtæki á Akureyri í fjögur ár en starfaði áður í um tæpra tuttugu ára skeið sem ráðgjafi hjá Gallup/Capacent. 

Viðreisn fékk ekki þingmann kjörinn í kjördæminu við þingkosningarnar 2017. Norðausturkjördæmi hefur 10 sæti á Alþingi, þar af 1 jöfnunarsæti. Kjördæmið varð til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000 og var fyrst kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003.