Einn af hverjum tíu teljast fullbólusettir

19.04.2021 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Yfir tólf þúsund manns fá bóluefni í þessari viku, þar af 9.400 með bóluefni Pfizer. 6.000 fá fyrri skammtinn en 2.500 þann seinni. Af þeim voru bólusettir um 2.000 heilbrigðisstarfsmenn á Landspítala um helgina. Þetta kemur fram á vef Landlæknisembættisins. Byrjað verður að nota AstraZeneca í þessari viku og bólusetning með bóluefninu hefst af fullum krafti í næstu viku.

Fram kemur á vef landlæknis að 2.600 fái bóluefni frá Moderna í vikunni, helmingur sinn fyrsta skammt og hinn seinni bólusetninguna. 

Fjórðungur þeirra sem til stendur að bólusetja hefur fengið minnst einn skammt eða rúmlega 70 þúsund manns og einn af hverjum tíu telst fullbólusettur. Næstum allir sem eru 80 ára og eldri eru fullbólusettir og 93 prósent þeirra sem eru á aldrinum 70 til 79 hafa fengið minnst einn skammt. 

Fjögur bóluefni hafa fengið skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu: Pfizer, Moderna, AstraZeneca og Janssen en það síðastnefnda hefur enn ekki verið notað. 

Pfizer hefur borið uppi bólusetningu hér á landi, rúmlega fjörutíu þúsund skammtar hafa verið gefnir og 27 þúsund teljast fullbólusettir með bóluefninu, að því er fram kemur á vefnum covid.is

Og þeim fjölgar verulega á næstunni. Vanalega koma bóluefni til landsins á fimmtudögum til laugardags og í þessari viku eru væntanlegir 12.660 skammtar sem síðan verða notaðir í næstu viku. Þetta eru rúmlega 9.300 skammtar af Pfizer og 3.300 frá AstraZeneca. Eftir viku verður síðan algjör sprenging  þegar hingað koma nærri 26 þúsund skammtar sem síðan eru notaðir í vikunni eftir það.

Lyfjastofnun heldur utan um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu gegn COVID-19. Nú hafa borist 719 tilkynningar, flestar eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca eða 307.  Aðeins 15 þeirra eru flokkaðar sem alvarlegar. 

221 tilkynning hefur borist eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer, þar af 28 sem eru flokkaðar alvarlegar. Þó ber að hafa í huga að bóluefnið hefur verið notað til að bólusetja elsta og veikasta fólkið.

Það gæti síðan dregið til tíðinda á morgun en þá er von á tilmælum frá Lyfjastofnun Evrópu gefur út tilmæli varðandi bóluefni Janssen. Ísland á nú þegar 2.400 skammta á lagar og von er á 2.400 skömmtum til viðbótar í næstu viku. Bóluefnið sker sig úr hópi bóluefna sem fengið hafa skilyrt markaðsleyfi því aðeins þarf eina sprautu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV