Bókasafn elsta háskóla Suður-Afríku skógareldi að bráð

19.04.2021 - 05:23
epaselect epa09143932 Fire fighters battle a blaze that destroyed the nearly 200-year-old Jagger Library on the University of Cape Town (UCT) campus in Cape Town, South Africa, 18 April 2021. A bushfire on the slopes of the world heritage site Table Mountain National Park raged out of control in strong winds and caused extensive damage to the University of Cape Town and many buildings around the nearly 200-year-old University founded in 1829. All students were evacuated from campus and several fire fighters were injured battling the blaze on the slopes of Table Mountain.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aldagamalt bókasafn háskólans í Höfðaborg varð í gær eldi að bráð þegar miklir skógareldar í hlíðum Table Mountain, eða Stapafells, læstu sig í byggingar þessa elsta háskóla Suður-Afríku. Gróðureldarnir loga enn og ganga slökkvistörf erfiðlega.

Nokkuð hefur verið um gróðurelda í næsta nágrenni Höfðaborgar síðustu daga. Í gærmorgun gaus upp skógareldur í hlíðum Table-fjalls og í gærkvöld náðu eldarnir að læsa sig í byggingar Höfðaborgarháskóla sem standa undir hlíðum fjallsins. Þar á meðal eru háskólagarðarnir og háskólabókasafnið, hið fornfræga Jagger-bókasafn, sem geymir marga ómetanlega dýrgripi.

Bókasafnið, sem er nær 200 ára gamalt, skemmdist  mjög mikið í brunanum en þó tókst að forða því frá algjörri eyðileggingu. Hundruð háskólanema þurftu að flýja háskólagarðana vegna eldsvoðans en engin slys urðu á fólki. 

Eldarnir loga enn

Á annað hundrað slökkviliðsmenn hafa barist við eldana í nótt og er slökkvistarfi ekki lokið enn þegar þetta er skrifað. Þvert á móti virðist sem eldarnir færist enn í aukana og haldi áfram að breiðast út um skóglendið í hlíðum og við rætur Table-fjalls, og hefur fjöldi fólks, bæði íbúar og útivistarfólk á þessu vinsæla útivistarsvæði, verið hvatt til að forða sér.