Þolir ekki spurninguna um hvort eitthvað sé ekki nóg

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Þolir ekki spurninguna um hvort eitthvað sé ekki nóg

18.04.2021 - 12:09

Höfundar

„Þetta er áttunda hljóðverið sem ég kem mér fyrir í og þau hafa öll verið bara ljómandi fín en núna langaði mig að ganga alla leið og vera með alveg fullkominn bíósal. Ég er orðinn rúmlega fimmtugur og á kannski eftir góð tíu til fimmtán ár í þessum bransa og þá var það spurning hvort ég vildi vera áfram að vinna við bara svona þokkalegar aðstæður eða taka þetta viðbótarskref og eignast hljóðver sem stæðist allar kröfur og þessar kröfur eru miklar,“ segir hljóðmaðurinn Gunnar Árnason.

Hann fékk í byrjun árs Dolby Atmos viðurkenningu á hljóðverið sem hann byggði sér við Elliðavatn.

„Það er búið að taka langan tíma að fá þessa úttekt frá Dolby enda rýna þeir í fáránlegustu smáatriði."

Gunnar sérhæfir sig í að hljóðvinna kvikmyndir og hefur nóg að gera við það og væntanlega fjölgar verkefnum enn frekar núna þegar aðstaðan er orðin eins og hún best gerist í heiminum.

„Mér skilst að þetta sé eina Dolby vottaða hljóðverið í einkaeigu í heiminum. Það er náttúrulega bilun en ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það þegar spurt er hvort eitthvað sé ekki nóg. Ég vil fara alla leið og ef ég geri það ekki strax þá enda ég á að gera það síðar og þá verður það bara dýrara þegar upp er staðið," segir Gunnar.