Þegar vestrið uppgötvaði sovésku rokksnilldina

Mynd: Big Time Records / Discogs

Þegar vestrið uppgötvaði sovésku rokksnilldina

18.04.2021 - 12:00

Höfundar

Fyrir 35 árum, árið 1986, kom út hin athyglisverða safnplata Red Wave. Með henni fengu vestrænir tónlistarunnendur í fyrsta skipti að heyra í neðanjarðarrokki sem kom handan járntjaldsins, tónlist sem var allt öðruvísi og líflegri en sú grámyglulega mynd sem birtist af Sovétríkjunum í fjölmiðlum.

Það var ung bandarísk tónlistarkona að nafni Joanna Fields sem stóð fyrir útgáfunni. Hún var dóttir kvikmyndagerðarmanns í Los Angeles sem hafði meðal annars framleitt áróðursmyndir gegn kommúnismanum sem leikarinn og síðar forsetinn Ronald Reagan ljáði rödd sína.  Þrátt fyrir að hafa alist upp við tröllasögur af Sovétríkjunum ákvað Joanna að fylgja systur sinni, sem var í skiptinámi í Bretlandi, einmitt þangað í skólaferð.  

Tónlistarkonan unga hafði fengið símanúmerið hjá kollega sínum í Leníngrad (sem nú heitir Pétursborg). Einn daginn laumuðust systurnar úr skoðunarferð, stungu af til að hitta tónlistarmanninn unga, Boris Grebenshchikov. Þau læddust heim til hans ásamt hópi vina. Joanna leyfði Boris að heyra sína einföldu popp-pönktónlist, lög eins og Boys, they are my toys og Beverly Hills Brat, fullviss um að fornfálegur Rússinn myndi vera upprifinn yfir vestrænni snilldinni.

Það var ekki fyrr en hann spilaði sína eigin tónlist sem hún áttaði sig á hversu hæfileikaríkur maðurinn var. Boris þessi var þá þegar búinn að fá viðurnefnið hinn sovéski Bob Dylan, og hljómsveit hans, Aquarium, var þá þegar orðin ein þekktasta neðanjarðarrokksveit landsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Joanna Stingray - Joannastingray.com
Joanna og Boris

Opinbert rokk og neðanjarðar

Lengi framan af hafði rokktónlist verið illa séð í Sovétríkjunum en smám saman höfðu stjórnvöld verið að gefa eftir. Þegar hér var komið voru rokksveitir gefnar út hjá ríkisreknu útgáfufyrirtæki, en tónlistin, myndböndin og allt útlit ritskoðuð og því ritstýrt með þjóðarheill og framgang kommúnismans að markmiði. Boris Grebenshchikov hafði staðið til boða að gerast slíkur „opinber“ rokktónlistarmaður ríkisins, en vildi ekki gangast undir ritskoðunina.

Það þýddi hins vegar að hann starfaði neðanjarðar. Þeir sem það gerðu áttu erfiðara með að gefa út og selja tónlist sína, gátu ekki komið fram á tónleikum á opinberum vettvangi, og gátu því ekki fengið almennilega greitt fyrir listsköpunina. Þrátt fyrir að vera orðinn landsþekktur, dáður og dýrkaður af ungmennum landsins, þurfti Boris Grebenshchikov eins og aðrir neðanjarðarrokkarar að hafa aðra atvinnu en tónlistina. Þeir fundu sér auðveld og ábyrgðarlítil störf sem gáfu þeim nægan tíma til að hanga og skapa list.

Frelsið í sovésku tónlistarlífi hafði vissulega aukist árin á undan. Tónleikar höfðu helst farið fram í heimahúsum, en nýlega hafði opnað fyrsti rokktónleikastaðurinn þar sem ó-opinberar hljómsveitir máttu koma fram. Það vissu þó allir að leyniþjónustan KGB fylgdist náið með Leníngrad rokkklúbbunum. Þangað mætti Joanna til að sjá hinn nýja vin sinn Boris spila og áttaði sig þá á að þarna væri heil sena uppfull af pönkaðri orku, sköpunarkrafti og frumleika.

Smygl, dulnefni og leyniþjónustur

Unga ameríska tónlistarkonan var gjörsamlega ástfangin af list og lífsviðhorfum rokkaranna, og í þokkabót var hún orðin ástfangin af einum rússanum, Yuri Kasparyan, gítarleikara í hljómsveitinni Kino. Hins vegar gat hún ómögulega fengið landvistarleyfi eða ferðamannavísa í Sovétríkjunum. Eina leiðin var að fara í skipulagðar ferðir gerðar út af menntastofnunum eða fræðsluhópum. Til að komast á snoðir um slíkar ferðir og safna sér peningum fékk Joanna sér vinnu á ferðaskrifstofu í L.A. og næstu ár flakkaði hún milli Bandaríkjanna og Leníngrad í skipulögðum hópferðum. Hún þóttist þó alltaf vera veik þegar halda átti út í rútu og hékk í staðinn með vinum sínum, gerði með þeim tónlist og sótti tónleika.

Frá byrjun tók hún það að sér að smygla inn hljóðfærum og ýmsum græjum frá Vesturlöndum fyrir vini sína austantjalds, David Bowie samþykkti til að mynda að borga fyrir nýjan Fender Stratocaster fyrir Boris, en Bowie hafði komist í kynni við tónlist Aquarium eftir krókaleiðum. Alltaf var hætta á að landamæraverðir gerðu græjurnar upptækar svo hún og rússnesku vinirnir þurftu að beita frumlegum leiðum til að fela þær og ljúga um ástæður innflutningsins.

Fljótlega fór hún svo að smygla út upptökum hina leiðina frá austri til vesturs með það fyrir augum að gefa út á plötu. Útgáfan var svo háleynileg að þegar átti að ræða hana í síma eða bréfum voru notuð leyninöfn, Joanna kallaði sig stingskötu, eða á ensku “Stingray”, og er hún enn þann dag í dag þekkt undir því nafni. Þetta var ekki að ástæðulausu enda fylgdust leyniþjónustur beggja landa með þessum grunsamlega tíðu ferðalögum tónlistarkonunnar.

Ný sýn á Sovétríkin

Tvöfalda safnplatan Red Wave, eða Rauðbylgjan: 4 neðanjarðarsveitir frá Sovétríkjunum kom út hjá áströlsku indíútgáfunni Big Time Records í júní árið 1986. 4 ólíkar rokksveitir með eina hlið hver og framan á umslaginu stóðu forsöngvararnir fjórir. Þarna var Boris Grebenshchikov með hljómsveit sinni Aquarium, þarna var glam-pönksveitin Alisa, ska-rokkararnir í Strannye Igry eða Skrýtnir leikir, og svo hljómsveitin sem átti eftir að verða sú stærsta í Sovétríkjunum, Kino.

Þó að platan hafi ekki orðið nein metsöluplata á Vesturlöndum vakti hún athygli meðal rokktónlistaráhugafólks, myndbönd sem Joanna Stingray tók upp voru spiluð á sjónvarpsstöðvum og hún rataði í fjölda viðtala vegna útgáfunnar. Myndin sem þarna birtist af sovéskum ungmennum var allt önnur en sú grámygla og kúgun sem vestrænir fjölmiðlar sýndu yfirleitt, þarna var leikandi létt fólk í litríkum fötum að spila upplífgandi tónlist með textum sem hvorki hömpuðu kommúnismanum né beindust gegn stjórnvöldum í Sovétríkjunum. Það sem vakti ekki síst athygli var að sveitirnar höfðu lítinn áhuga á því að flýja hina meintu ömurð í Sovétríkjunum, syngja á ensku og slá í gegn í Bandaríkjunum. Þeir voru Rússar og vildu búa þar og syngja fyrir sitt fólk, þó vissulega væri fínt ef þær gætu fengið borgað fyrir tónlistina.

Glæpur og refsing

Yfirvöldum í Sovétríkjunum var þó ekki skemmt, enda leit það vandræðalega út fyrir þau að hæfileikaríkir og landsþekktir tónlistarmenn gætu ekki gefið út tónlist sína almennilega í eigin landi, þyrftu að halda sig neðanjarðar og smygla músíkinni til Vesturlanda til að fá viðurkenningu. Eins og ákveðið hafði verið þóttust hljómsveitirnar hins vegar ekkert hafa vitað um útgáfuna, til að forðast refsingu yfirvalda, og Joanna tók á sig sökina. 

Hún bjóst allt eins við því að fá aldrei aftur að heimsækja vini sína í Leníngrad. En yfirvöld virtust ekki hafa eina skoðun eða eina skýra línu, mismunandi reglur eða viðmið virtust gilda á mismunandi dögum, hjá mismunandi stofnunum eða í mismunandi borgum. Í nýútgefinni bók um útgáfu Red Wave lýsir Joanna Stingray glímu sinni við stjórnvöld. Eftir að hafa beðist afsökunar á útgáfunni og greitt málamyndasekt fyrir brot á höfundaréttarlögum þá var Stingray farin að skipuleggja menningarsamskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna í samstarfi við opinbera aðila, tónleika með vestrænum tónlistarmönnum og svo framvegis, en svo skyndilega þegar hún ætlaði að giftast kærasta sínum í Leníngrad þá var henni neitað um leyfi til að heimsækja landið svo mánuðum skipti.

Mynd með færslu
 Mynd: Joanna Stingray - Joannastingray.com

Opnun og útgáfa

Þrátt fyrir að hafa ekki komið út fyrr en nokkrum árum síðar í Sovétríkjunum vilja sumir meina að áhrif plötuútgáfunnar hafi verið meiri þar í landi. Red Wave var gefin út einmitt þegar Sovétríkin voru að byrja að opnast og kannski til að líta ekki of illa út var ákveðið að Aquarium fengju að gefa út á ríkisútgáfufyrirtækinu Melodya án nokkurrar ritskoðunar. Þetta þótti sæta tíðindum. Mikhail Gorbachev sem þá var orðinn aðalritari sovéska kommúnistaflokksins sagði síðar: „Ef okkar eigin rokksveitir eins og Akvaríum og Kíno voru gefnar út í vestrinu á Red Wave plötunni, af hverju áttum við ekki að leyfa þeim að gefa út í Rússlandi?“

Hljómsveitirnar sem léku inn á Red Wave áttu eftir að festa sig enn frekar í sessi sem vinsælustu rokksveitir Rússlands á næstu árum, Boris Grebenshchikov reyndi einnig fyrir sér á Vesturlöndum með plötunni Radio Silence árið 1989, en hún floppaði og hann sneri sér að eigin heimamarkaði þar sem hann hefur verið dáður og dýrkaður æ síðan.  Kino með hina tragísku rómantísku hetju Viktor Tsoi í broddi fylkingar átti eftir að verða sú allra vinsælasta í Sovétríkjunum allt þar til Tsoi lést í bílslysi árið 1990, aðeins 28 ára. Joanna Stingray var búsett í Rússlandi til ársins 1996 og naut vinsælda þar fyrir sína eigin tónlist og sjónvarpsþætti. Hún var algjörlega óþekkt í heimalandinu en átti nokkurn aðdáendahóp og eftirhermur sem líktu eftir stíl hennar og töktum í Rússlandi.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Frægasta rokkstjarna sem þú hefur aldrei heyrt á minnst

Tónlist

Maggi Kjartans kýldi Björgvin Halldórs í Sovétríkjunum

Menningarefni

Dreymir um að búa í Sovétríkjunum í gamla daga

Bókmenntir

Tinni í Sovétríkjunum