Telur hægt að auglýsa Íslandsbanka til sölu í júní

18.04.2021 - 15:17
bjarni benediktsson fjármálaráðherra formaður sjálfstæðisflokksins
 Mynd: RÚV/Grímur
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að undirbúningur fyrir sölu á hlut í Íslandsbanka gangi samkvæmt áætlun og að líklega verði hægt að auglýsa hlutinn til sölu strax í byrjun júní.

Bankasýsla ríkisins lagði til í desember að ríkið seldi fjórðungshlut í Íslandsbanka, og gerði þá ráð fyrir að hægt yrði að opna fyrir útboð fimm mánuðum síðar - eða um það leyti sem nú er. Meirihlutar efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar þingsins lögðu svo til að 25-35 prósent af hlutafé bankans yrðu boðin til sölu, og bankasýslunni var falið að hefja undirbúninginn. Hann stendur enn - fyrir mánuði var gengið frá ráðningu þriggja ráðgjafa við söluferlið, sem eru Citigroup, JP Morgan og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka. Þeir voru valdir úr hópi 24 umsækjenda um verkið.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist telja að góður gangur sé í vinnunni. „Ég hef bara góðar væntingar til þess að þetta muni ganga upp samkvæmt því sem upp var lagt með, en það er þó enn of snemmt að segja.
- Ef þetta allt gengur vel, hvenær heldurðu að væri hægt að setja hann á sölu?
Ég geri ráð fyrir að það verði snemma í júní - mér þætti það ekkert ólíklegt.“

Skrá á hlutinn allan á markað hérlendis og þingnefndameirihlutarnir lögðu til að það yrði tryggt að enginn gæti átt meira en tvö og hálft til þrjú prósent í bankanum. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt söluáformin, og meðal annars spurt hvort þingkosningarnar í haust ráði því að til standi að selja núna, en ekki seinna.