Sigurganga Lyon í Meistaradeildinni á enda

epa08627437 Wendie Renard (L) of Lyon goes for a header to score the opening goal during the UEFA Women Champions League semi final match between Paris Saint-Germain and Olympique Lyon in Bilbao, Spain, 26 August 2020.  EPA-EFE/Alvaro Barrientos / POOL
 Mynd: EPA

Sigurganga Lyon í Meistaradeildinni á enda

18.04.2021 - 14:00
Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í franska stórliðinu Lyon munu ekki verja meistaratitil sinn í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Lyon féll í dag út fyrir PSG í 8-liða úrslitum keppninnar. Lyon hefur unnið Meistaradeild Evrópu síðustu fimm ár, en nú er ljóst að það verður annað lið sem verður Evrópumeistari í ár.

Lyon vann fyrri leik sinn við PSG í París, 1-0 og með útivallarmarkið í farteskinu varð staðan Lyon góð þegar Catarina Macario kom liðinu 1-0 yfir í dag. Samanlögð staða í einvíginu var þar með orðin 2-0 fyrir Lyon. En Grace Geyoro jafnaði metin fyrir PSG í 1-1 á 25. mínútu og sjálfsmark Wendie Renard kom PSG svo yfir á 61. mínútu. Það mark réði úrslitum í dag og PSG vann seinni leikinn 2-1.

Parísarliðið komst því undanúrslit með fleiri mörk skoruð á útivelli og sendi Evrópumeistara síðustu fimm ára þar með úr leik í Meistaradeildinni. Sara Björk sem er meidd þessa dagana gat af þeim sökum ekki spilað með Lyon í dag. Hún mun því ekki verja Evrópumeistaratitil sinn í ár úr því Lyon er úr leik.

Karólína eini Íslendingurinn eftir í keppninni

Lyon er sigursælasta lið Meistaradeildar Evrópu hjá konunum. Liðið hefur unnið titilinn samanlagt sjö sinnum. 2011, 2012 og svo á hverju ári frá og með 2016. Að auki lék Lyon svo til úrslita 2010 og 2013 en tapaði þeim úrslitaleikjum. Þetta verður því aðeins í þriðja sinn frá 2010 sem Lyon leikur ekki til úrslita í Meistaradeildinni.

Einn Íslendingur er þó eftir í keppninni í ár. Bayern München með Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur innanborðs mæta Chelsea í undanúrslitum 25. apríl og 2. maí. PSG mætir svo Barcelona í hinni undanúrslitarimmunni. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar verður svo leikinn 16. maí í Gautaborg.