Segjast hafa afstýrt banatilræði við Lúkasjenkó

epa09138947 Belarusian President Alexander Lukashenko during a meeting with Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (not pictured) in Minsk, Belarus, 16 April 2021. Russian Prime Minister is on a working visit to Belarus.  EPA-EFE/ALEXANDER ASTAFYEV / SPUTNIK / GOVERNMENT PRESS SERVICE POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Leyniþjónustur Rússlands og Hvíta-Rússlands, eða Belarús, afstýrðu valdaránstilraun í Hvíta Rússlandi og banatilræði við forseta landsins, samkvæmt yfirlýsingum frá leyniþjónustum ríkjanna tveggja.

Í tilkynningu rússnesku leyniþjónustunnar FSB segir að tveir menn hafi verið handteknir í Moskvu, grunaðir um að leggja á ráðin um að myrða Lúkasjenkó. Báðir séu þeir hvítrússneskir borgarar en annar þeirra sé einnig bandarískur ríkisborgari. 

Ivan Tertel, yfirmaður hvítrússnesku leyniþjónustunnar KGB, fullyrðir að tekist hafi að afstýra ráðabruggi um valdarán í Hvíta Rússlandi og vopnaða árás á Lúkasjenkó og ríkisstjórn landsins. Ætlunin hafi verið að bola stjórninni frá og ráða Lúkasjenkó, fjölskyldu hans og helstu ráðgjafa og öryggisverði af dögum, segir Tertel. Þá hafi samsærismenn ráðgert að leggja undir sig ýmsar mikilvægar byggingar og fleiri mannvirki í landinu, að hans sögn.