Nauthólsvík var lokuð baðgestum vegna fljótandi skólps

Mynd: RÚV / RÚV

Nauthólsvík var lokuð baðgestum vegna fljótandi skólps

18.04.2021 - 09:00

Höfundar

„Það lagði af þessu fýluna,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur um frumstæðar fráveiturennur sem lagðar voru í gegnum borgina á árum áður, og átti óþrifnaðurinn meðal annars þátt í taugaveikisfaraldri og rottugangi. Óheimilt var að baða sig í Nauthólsvík frá árunum 1969 vegna skólpmengunar og baðgestir ekki velkomnir þangað aftur fyrr en árið 2000.

Bókin CLOACINA – Saga fráveitu kom nýverið út á vegum Veitna. Þar rekur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin. Bókin er nefnd eftir rómverskri gyðju sem var verndari holræsanna í Rómarborg. Guðjón kíkti í Kiljuna til Egils Helgasonar og sagði frá bókinni og rannsóknum sínum á skólpi í Reykjavík og fráveitu.

Það er sannarlega mikilvægt í þéttbýli að tryggja að hægt sé að beina klóaki réttar leiðir en ekki er eins mikið fjallað um fráveituna í samanburði við til dæmis skólakerfið, heilbrigðisþjónustu eða vatnsveitu. „Þetta er grunnþáttur en hann er svo ósýnilegur nú til dags í þróuðum borgum. Fólk tekur þessu bara sem sjálfsögðum hlut og veit ekkert af þessu, þetta er allt neðanjarðar eða neðansjávar,“ segir Guðjón. Það kom honum á óvart hve gaman honum þótti að rannsaka þessa lítt sögðu sögu.

Taugaveikistilfellum fjölgaði stigvaxandi

Á gömlum myndum af Reykjavík sem til sýnis eru í bókinni má sjá fráveiturennurnar sem voru sýnileg skólpræsi sem ollu miklum óþrifnaði. „Það lagði af þessu fýluna og þetta var meira og minna stíflað og fyllt alls konar óhroða.“ En það uppgötvaðist ekki fyrr en síðar hversu heilsuspillandi þær voru. „Þegar sýklaheimurinn fór að uppgötvast fyrir alvöru þá náttúrulega sáu menn tengslin á milli þessa og alls konar sjúkdóma eins og til dæmis taugaveiki, og eftir að Reykjavík fór að vaxa mjög hratt eftir 1900 þá fjölgaði taugaveikistilfellum stigvaxandi ár frá ári.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Opin renna lá í gegnum Kirkjustræti.

„Hin ilmandi slóð“ í gegnum Lækjargötu

Í lækinn fræga, þar sem nú er Lækjargata, rann klóak úr Holtunum og hann var orðinn sem höfuðræsi. „Reykvíkingar kölluðu hann í svona hálfkæringi hina ilmandi slóð,“ segir Guðjón. Í Austurstæti var svo Gullræsið eða Gullrennan eins og hún var kölluð vegna þess hve dýr hún þótti. „Menn voru ekki mjög fúsir til að eyða miklum peningum í svona, svo gárungarnir kölluðu þetta strax gullrennuna því hún þótti svo dýr.“

Nunnurnar í Landakoti stóðu fyrir fyrsta holræsinu

Fyrsta holræsið er lagt árið 1902 fyrir atbeina nunnanna í Landakoti, að sögn Guðjóns. Þá var nýkominn til landsins Knud Zimsen sem þá hafði unnið sem nýútskrifaður verkfræðingur við holræsagerð í Kaupmannahöfn. „Hann var alveg útfarinn í þessu og þær fengu hann, eða hvort það var hann sem átti uppástunguna,“ segir Guðjón. Þá þurfti að grafa brunn til að fá heilnæmt vatn í spítalann sem var reistur árið 1902 og síðan var ákveðið að leggja holræsi frá honum niður að sjó.

Árið 1906 byrjuðu slíkar framkvæmdir fyrir alvöru, ekki síst að frumkvæði bæjarbúa sjálfra, að sögn Guðjóns. „Þeir sáu hvað þetta væri, það voru alls staðar einhverjar vilpur og þetta rann ofan í kálgarðana þeirra.“ Bæjarbúar brugðu á það ráð að bjóðast til að leggja sjálfir fram fé á móti bæjarstjórinni til að stöðva skítastrauminn. „Þetta kemur dálítið neðan frá.“ Árið 1911 var lagt á holræsisgjald.

Heilmikið átak

Í Reykjavík voru á milli 40-50 útrásir sem leiddu út í fjöruna og þeim fylgdi mikil mengun. Margir Íslendingar muna eftir því þegar fjörurnar voru útataðar í skólpi. „Og það til dæmis mátti ekki baða sig í Nauthólsvík, henni var lokað 1969 vegna skólpmengunar og ekki opnað aftur fyrr en árið 2000 fyrir bæjargesti.“

Það var loks gert mikið átak þegar lögð voru sniðræsi meðfram ströndinni og dælustöðvum var komið upp með reglulegu millibili. „Það fer allt skólp í Reykjavík og Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ að hluta út um þessar tvær rásir, marga kílómetra á haf út,“ segir Guðjón. Mikið átak hafi verið að koma þessu út. „Það voru gerðar tilraunir með þetta 1956 en það var ekki fyrr en 1986 sem það er farið í þetta fyrir alvöru. Þetta var gríðarlegt átak.“

Rottur í hverju húsi í Reykjavík

Guðjón helgar heilan kafla rottuganginum sem var mikill eftir stríð þegar aldar hafi verið rottur í nánast hverju einasta húsi í Reykjavík.  „Þær voru alls staðar úti í portum og þetta keyrði um þverbak á seinni heimsstyrjaldarárunum. Gríðarlegur rottugangur.“

Verðlaun fyrir rottuhala

Ýmsar tilraunir voru gerðar til að losna við rotturnar, meðal annars að veita verðlaun fyrir hvern rottuhala sem fólk gat komið með til bæjargjaldkerans. „Það hafði engin áhrif,“ segir Guðjón. Loks á árunum 1946-1950 hafi verið fengið hingað til lands enskt félag sem átti að útrýma rottunum og það voru fyrstu aðgerðirnar sem báru árangur.

Mikil rannsóknarvinna er að baki bókinni sem Guðjón hafði meira gaman að en hann þorði að vona. „Ég hélt kannski að þetta yrði leiðinlegt en svo fannst mér þetta alveg bráðskemmtilegt þegar út í það er farið,“ segir hann og kveðst alls ekki vera fyrstur til að gefa holræsum svo mikið pláss í bókmenntum því í Vesalingunum eftir Victor Hugo sé stór kafli sem fjalli eingöngu um holræsakerfin í París.

Rætt var við Guðjón Friðriksson í Kiljunni.