Næstu dagar verða úrslitastund

18.04.2021 - 12:13
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Víðir Reynisson yfirlögegluþjónn segir að næstu þrír sólarhringar ráði úrslitum um hvort að COVID-smitin í leikskólanum Jörfa í Reykjavík verði stórt staðbundið hópsmit eða eitthvað meira en það. Mörg hundruð gætu þurft að fara í sóttkví vegna tíu smita sem hafa greinst þar. Að auki hafa íbúar í nágrenninu verið hvattir til að fara í sýnatöku. Það er óvenjulegt en Víðir segir mikla áherslu lagða á að ná utan um máli. Yngsta barnið sem smitaðist er fimm ára.

Fimm af þeim þrettán sem greindust með COVID-19 í gær eru formlega skráðir innan sóttkvíar. Stysta sóttkvíin hafði hins vegar staðið yfir í innan við klukkustund og starfsmenn á einni deild leikskólans fóru í sóttkví á föstudag, deginum áður en smitin í gær greindust. „Sóttkvíin skiptir nánast engu máli í þessum dæmum því fólk var búið að vera á ferðinni síðustu tvo daga. Þetta tengist málum sem nánast komu upp í gær og síðasta málið var á föstudagskvöldið, þannig að sóttkvíin hafði staðið stutt,“ segir Víðir.

Tengist broti á landamærunum

Fram kemur í fréttum Mbl.is og Vísis að hópsmitið tengist broti á sóttvarnareglum við komuna frá útlöndum sem sóttvarnayfirvöld hafi verið að rannsaka. Þau smit hafi verið rakin saman. Víðir segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að það hafi ekki verið starfsmaður Jörfa sem braut gegn sóttkvíarreglum við landamæraeftirlit en segir ekki hvernig brotið á landamærunum tengist sóttkvínni. 

Auk smitanna í Jörfa hafa greinst tvö smit í matvælafyrirtæki þar sem vinna um hundrað manns. Víðir segir að lítið hafi komið út úr skimunum í matvælafyrirtækinu en ekki er búið að skima alla starfsmenn. Fram kom á Mbl.is í gær að það er fyrirtækið Íslenskt sjávarfang.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Leikskólinn stóra málið

Víðir segir að leikskólinn sé stóra málið í smitum sem nú er verið að fást við. Mikil vinna verður lögð í að komast fyrir það.

„Við erum að reyna að beita þessum aðferðum að ná til fólks með skimun eins og hægt er. Í þessu hverfi er dálítið af fólki sem er með sameiginlega innganga og stigaganga og annað slíkt sem börn og starfsmenn í leikskólanum eru í. Það er mikilvægt að reyna að ná utan um það, sjá hvort við séum með eitthvað í gangi þar. Stóru skilaboð dagsins eru að fólk með einkenni fari í sýnatöku. Það hefur greinilega slaknað aðeins á því og fólk er jafnvel búið að vera veikt í einhverja daga áður en það fer í sýnatöku. Þetta er gamla íslenska leiðin að harka af sér kvefið en það gildir bara ekki á tímum COVID. Það gildir bara að fara í sýnatöku af minnsta einkenni.“

Víðir hvetur fólk sem fær neikvætt úr sýnatöku eftir að hafa fundið fyrir einkennum til að fara varlega, sérstaklega ef það er áfram veikt og mætir ekki til vinnu fyrr en eftir einhvern tíma. Þá ætti það að fara aftur í sýnatöku áður en það fer til vinnu. „Nú er það sýnataka sem gildir við minnstu einkenni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Óljóst er hversu margt fólk fer í sýnatöku í dag en viðbúið að það verði margt. „Við erum undir það búin að taka við miklum fjölda,“ segir Víðir. Um 140 manns hafi farið í sóttkví beinlínis vegna veru sinnar á leikskólanum, starfsmenn og börn, en við það bætast foreldrar barnanna og hugsanlega systkin þeirra. „Þetta getur skipt mörg hundruð sem eru að fara í sóttkví út af þessu máli,“ segir Víðir. „Nýju reglurnar eru þannig að allir sem eru á heimili með einhverjum sem eru í sóttkví þurfa að vera í sóttkví líka. Þetta er örugglega mjög snúin staða sem margar fjölskyldur eru í.“

Tengist ekki tilslökunum

Víðir segir að hópsmitið á leikskólanum tengist ekki slökun á sóttvarnareglum í vikunni. „Leikskólinn er búinn að starfa eftir reglum í talsvert langan tíma, þar sem voru hólfaskiptingar en leyfð blöndun milli hólfa. Þessar breytingar á reglum sem voru kynntar síðast höfðu engin þannig áhrif á starfsemi leikskólanna. Það er ekki hægt að rekja þetta beint saman. En við höfum séð áður við tilslakanir að við höfum fengið eitthvert bakslag. Stundum náum við strax utan um það, stundum ekki. Núna erum við að reyna að beita smitrakningu og skimun til að ná utan um þetta. Tíminn verður að leiða það í ljós og dagurinn í dag og næstu tveir dagar verða úrslitastund í þessu hvort að þetta sé að verða eitthvað meira en staðbundið hópsmit þótt það sé að verða stórt.“

Víðir segir að lengi hafi verið blöndun milli hólfa í leikskólum þar sem kennarar hafa mátt fara á milli hólfa.

Náum vonandi utan um þetta

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Víðir. Hann segir að vonandi þurfi ekki að herða sóttvarnaaðgerðir vegna þessa. „Vonandi náum við utan um þetta með þessum aðferðum sem við erum að beita í dag, gríðarlega umfangsmikilli skimun og sóttkví. Ef allt gengur upp í því náum við vonandi utan um þetta.“

Uppfært 13:03 með upplýsingum um tengsl við brot á landamærunum.