Brottnumin frönsk stúlka fannst í Sviss

18.04.2021 - 22:12
epa09142885 The squat in the former Reuge factory in Sainte Croix, Switzerland, where little girl Mia, searched for five days by the French police, was found in good health with her mother, 18 April 2021. The girl was abducted on 13 April 2021 in the Vosges mountains in the village of Poulieres near the German border. Mia stayed there with her grandmother, Mia's mother was not allowed to see the child alone.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUN
Húsið þar sem stúlkan fannst ásamt móður sinni. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Lögreglumenn í Sviss fundu í dag átta ára gamla franska stúlku sem var numin á brott frá ömmu sinni og afa í Frakklandi í byrjun vikunnar. Stúlkan var í för með móður sinni sem hafði notið aðstoðar fimm karlmanna við að nema stúlkuna á brott og flytja hana yfir landamærin.

Að sögn lögreglu þóttust þrír mannanna vera starfsmenn barnaverndaryfirvalda og framvísuðu fölsuðum skilríkjum. Þannig tókst þeim að fá ömmu stúlkunnar til að láta hana af hendi. Þeir fóru síðan til fundar við móður stúlkunnar. Móðirin og þrír menn gengu yfir landamærin til Sviss með stúlkuna. Þar kom að enn einn maðurinn og keyrði sá mæðgurnar á hótel. Eftir það höfðust móðir og dóttir við í yfirgefnu húsi uns þær fundust.

Um 200 franskir lögreglumenn tóku þátt í leitinni að stúlkunni. Þeir handtóku fimm karlmenn þegar leið á vikuna og eru fjórir þeirra í haldi lögreglu. Saksóknari sagði að barnsránið hefði verið framkvæmt af hernaðarlegri nákvæmni, hópurinn hefði skipulagt aðgerðir sínar vel, notast við talstöðvar, útilegubúnað, fölsuð skilríki og bílnúmer. Mennirnir eru sagðir tilheyra samfélagi fólks sem er andvígt stjórnvöldum og grípur saman til aðgerða gegn því sem þau kalla einræði heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda. Fólkinu mun vera mjög uppsigað við að börn séu tekin af foreldrum sínum og komið í fóstur.

Stúlkan er nú í höndum barnaverndaryfirvalda og verður í framhaldinu flutt til ömmu sinnar og afa.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV