Boðað til forsetakosninga í Sýrlandi í lok maí

18.04.2021 - 16:23
Erlent · Asía · sýrland · Stjórnmál
epa09142830 A general view of members of the Syrian Parliament attending an extraordinary session in Damascus, Syria, 18 April 2021. Sabbagh announced on 18 April that Syria will hold its presidential election on 26 May, the second one to take place since the the civil war erupted in 2011. The door for nomination will be open for 10 days starting 19 April. Syrians abroad will vote on 20 May.  EPA-EFE/YOUSSEF BADAWI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boðað hefur verið til forsetakosninga í Sýrlandi 26. maí, en þingforsetinn Hamouda Sabbagh tilkynnti þetta í dag.

Frambjóðendur geta frá og með morgundeginum lagt inn formlega tilkynningu um framboð. Þó er talið að sitjandi forseti, Bashar Al-Assad, eigi sigurinn vísan þó hann hafi ekki enn tilkynnt hvort hann hugsi sér að sitja áfram. Assad hefur setið á forsetastóli frá árinu 2000 og var síðast endurkjörinn með 88 prósentum atkvæða árið 2014.

Samkvæmt stjórnarskrá landsins mega þeir einir bjóða sig fram sem hafa búið samfellt í landinu síðastliðin tíu ár, sem kemur í veg fyrir stjórnarandstæðingar í útlegð geti boðið sig fram. Þá þurfa frambjóðendur einnig stuðning þingsins, þar sem stjórnarflokkur Assads er í meirihluta.

Kosningarnar fara fram í skugga stríðs sem staðið hefur í landinu í áratug. Að minnsta kosti 388 þúsund hafa fallið í stríðinu og um helmingur þjóðarinnar annað hvort þurft að yfirgefa heimili sín eða hreinlega flýja land.