Bæjarstjóranum bauðst fimmta sætið en þáði það ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Framsókn - Framsóknarflokkurinn
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og ritari Framsóknarflokksins, sóttist eftir öðru sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann hafnaði í því fimmta en hafði látið vita fyrir prófkjörið að hann myndi ekki þiggja sæti neðar en annað sætið. Niðurstöðurnar lágu fyrir í gær og Jón Björn segist hafa mikla trú á listanum. Hann ætlar að skoða stöðu sína fyrir næsta flokksþing. 

„Þetta eru auðvitað vonbrigði fyrir mig persónulega, ég stefndi á annað sæti en fékk ekki það sæti. En ég er bara ánægður með þessa kosningu, þetta var góð kosning og sterkur hópur af fólki sem ég veit að hellir sér í baráttuna af fullum krafti. En það eru alltaf vonbrigði þegar maður nær ekki markmiðum sínu,“ segir hann í samtali við fréttastofu. 

Þú gegnir þriðja æðsta embætti flokksins, koma þessar niðurstöður þér á óvart?

„Já, þegar maður tekur þátt í prófkjöri vill maður ná því sem maður ætlar sér, þannig að það eru vonbrigði. En ég gerði mér svosem engar aðrar vonir en aðrir bara, að leggja mig undir og sjá svo hvað kæmi út úr því,“ svarar hann. 

Þegar Jón Björn er spurður hvort hann telji niðurstöður prófkjörsins hafa áhrif á stöðu sína sem ritari segir hann það þurfa að koma í ljós. „Nú veit ég ekki. Forustan er undir á flokksþingum, það þarf maður bara að skoða þegar að því kemur, á næsta flokksþingi.“

En heldurðu að þú sækist eftir að vera áfram ritari flokksins á næsta flokksþingi?

„Ég hef bara ekki gert það upp við mig. Vonandi getum við haldið flokksþing í haust, það er stefnan, ef COVID leyfir. Það hefur verið erfitt að halda stór þing og fundi. En við stefnum á það og þá verð ég búinn að ákveða mig. Ég skoða stöðu mína þegar að því kemur, nú er bara að undirbúa flokkinn fyrir kosningar,“ segir Jón Björn. 

Niðurstöður prófkjörsins voru eftirfarandi: 

  1. sæti, Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri Læknastofu Akureyrar. Hún fékk 612 atkvæði í 1. sæti.
  2. sæti, Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Fáskrúðsfirði. Hún fékk 529 atkvæði í 1.-2. sæti.
  3. sæti, Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi Grýtubakkahreppi. Hann fékk 741 atkvæði í 1.-3. sæti.
  4. sæti, Helgi Héðinsson, oddviti  Skútustaðahrepps. Hann fékk 578 atkvæði í 1.-4. sæti.
  5. sæti, Halldóra Hauksdóttir, lögmaður Akureyri. Hún fékk 547 atkvæði í 1.-5. sæti.
  6. sæti, Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi Kelduhverfi. Hann fékk 496 atkvæði í 1.-6. sæti.

 

Fréttin var uppfærð 16:27 eftir að Jón Björn lét vita að hann hefði lent í fimmta sæti en ekki þegið það. Áður sagði að hann hefði ekki lent í neinu af efstu sex sætunum.