Tröllaskagi í aðalhlutverki í nýju myndbandi

Mynd með færslu
 Mynd: Blood Harmony - YouTube

Tröllaskagi í aðalhlutverki í nýju myndbandi

17.04.2021 - 09:02

Höfundar

Systkinahljómsveitin Blood Harmony sendi frá sér myndband við lagið Wicked Heart í dag en stórbrotin náttúra Tröllaskaga leikur lykilhlutverk í myndbandinu. Hægt er að horfa á myndbandið neðst í fréttinni.

Lagið fjallar um líf í skugga meðvirkni, en líka um að hver og einn skapar og ber ábyrgð á sinni hamingju og að í þeirri uppgötvun felist frelsi. Elísa L. Iannacone leikstýrir myndbandinu en Blood Harmony hefur áður unnið með henni. Upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir að Elisa myndi taka upp myndband við lagið Summer Leaves en þegar ljóst var að hægt væri að taka upp tvö myndbönd var ákveðið að taka líka upp myndband við lagið Wicked Heart. 

Ösp Eldjárn, söngkona og lagasmiður í Blood Harmony, segir að Elisa hafi fengið þá hugdettu að nýta hina stórbrotnu náttúru í Tröllaskaga og setja hana í aðalhlutverkið. Myndbandið sé allt tekið upp á Tröllaskaga í Svarfaðardal og á Ólafsfirði. 

Staðsetningin sé þó engin tilviljun. „Við erum ættuð frá Tjörn í Svarfaðardal svo að við vildum nota hina ótrúlega fallegu náttúru heimahaganna í myndböndin okkar,” segir Ösp. Þegar tökur á myndbandi við lagið Summer Leaves kláruðust fór Elísa í bíltúr um Tröllaskaga og heillaðist af umhverfinu við Ólafsfjörð og vildi ólm taka líka upp myndband þar. „Við leyfðum henni því bara að taka stjórnina og sjáum ekki eftir því. Við viljum líka þakka indælismönnunum við hafnarsvæðið á Ólafsfirði fyrir að leyfa okkur að klöngrast upp á gámana þeirra,” segir Ösp.

Næstu verkefni hjá Blood Harmony snúast um að gefa út fleiri lög og hljómsveitin vinnur einnig að plötu sem þau stefna á að gefa út í haust eða snemma næsta vetur. „Svo er það bara að reyna að plana eitthvert tónleikasumar, ef covid lofar,” segir Ösp.