Þökkuðu landanum góðar viðtökur við „furðumúsík“ sinni

Mynd: RÚV / RÚV

Þökkuðu landanum góðar viðtökur við „furðumúsík“ sinni

17.04.2021 - 22:47

Höfundar

Hljómsveitin Sigur Rós var heiðruð á Íslensku tónlistarverðlaununum sem fram fóru í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Hljómsveitin sagði það ólýsanlegt fyrir „gamla réttarsalsgengna menn“ að hljóta þessa viðurkenningu. Sveitin þakkaði sömuleiðis landanum öllum fyrir góðar viðtökur við „furðumúsík“ þeirra.

Hljómsveitin Sigur Rós fæddist í Mosfellsbæ árið 1994 en nafnið kom frá nýfæddri systur söngvara og gítarleikara sveitarinnar, Jóns Þórs Birgissonar eða Jónsa. Ásamt honum skipuðu hljómsveitina þeir Georg Holm, Ágúst Ævar Gunnarsson og síðar Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari, og Orri Dýrason, trommari. 

Kjartan Sveinsson tók það að sér að tala fyrir hönd Sigur Rósar á verðlaunahátíðinni í kvöld og sagði það ólýsanlegt fyrir þá „gömlu, réttarsalsgengnu“ mennina að fá þessa viðurkenningu og þennan stuðning frá tónlistarsamfélaginu. Kjartan kom víða við í þakkarræðu sveitarinnar og sagði meðal annars frá upphafsárum hennar þar sem þeir spiluðu fáa tónleika og sáu ekki tilgang í því að fara í viðtöl heldur lokuðu sig af og þróuðu sína tónlist. Þeir hafi svo sannarlega uppskorið árið 1999 þegar platan Ágætis byrjun kom út. 

„Við viljum þakka ykkur, kollegum og landanum öllum fyrir að taka svona vel á móti þessari furðumúsík sem við vorum að gera,“ sagði Kjartan.  

Kjartan sagði það sömuleiðis hafa verið einstakt að fá að gera tónlist í því umhverfi sem Ísland bauð upp á. Hljómsveitin hafi því vilja þakka fyrir sig árið 2006 þegar þeir buðu landsmönnum öllum frítt á tónleika víða um landið og tóku upp fyrir kvikmyndina Heima. Sveitin notaði sömuleiðis tækifærið og bað kollega sína afsökunar á öllum álfaspurningum erlendra blaðamanna sem hafa dunið á listamönnum þjóðarinnar síðan. 

Í þakkarræðunni var komið inn á samstöðu sem einn mikilvægasta partinn í sögu sveitarinnar. Kjartan hvatti sömuleiðis tónlistarfólk til þess að huga að samstöðunni enda sé tónlistarbransinn erfiður, flókinn og síbreytilegur bransi sem erfitt geti verið að fóta sig í þegar lífið snýst um að skapa. 

„Verkfærin eru tilfinningar og ímyndunarafl en ekki Excel skjöl, útgáfusamningar, umboðsfyrirtæki eða skattframtöl,“ sagði Kjartan að lokum. 

Mynd: RÚV / RÚV
Tilkynning heiðursverðlauna á Íslensku tónlistaverðlaununum í kvöld

Fyrsta plata Sigur Rósar, Von, kom út árið 1997 en plata þeirra, Ágætis byrjun, sem kom út árið 1999 náði eyrum tónlistarunnenda um allan heim. Velgengnin hélt áfram á plötunni () árið 2002 þar sem þeir bjuggu til sitt eigið tungumál, Vonlensku eða Hopelandic. Áhorfendahópurinn stækkaði áfram og hljómsveitin fór á fjölmörg tónleikaferðalög. Hún kom sér svo fyrir í nýju hljóðveri í gamalli sundlaug í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ sem er fyrir löngu orðið goðsagnakennt og er enn starfrækt. 

Í heiðursverðlaunakynningu sveitarinnar var sömuleiðis snert á þeirri landkynningu sem Sigur Rós hefur staðið fyrir og hve mikilvægt það hefur verið fyrir íslenska tónlist og íslenska tungumálið að sveitin syngi á íslensku. Sigur Rós hafi þannig sýnt það og sannað að það er hægt að slá í gegn á alþjóðavísu með því að syngja á íslensku. 

Hljómsveitin hefur gefið út sjö breiðskífur, gert kvikmyndir, ferðast um Ísland og allan heiminn. Sigur Rós kom síðast fram hér á landi á Norður og niður listahátíðinni sem sveitin stóð sjálf fyrir í Hörpu milli jóla og nýárs árið 2017.