„Það eru völd sem ég ætla ekki að gefa þessum geranda“

17.04.2021 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Páll Óskar - Páll Óskar Hjálmtýsson
„Ég neita að vera í vörn,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson í samtali við fréttastofu en hann ákvað í dag að snúa vörn í sókn og birta myndir af sér á Facebook og Instagram sem óprúttinn aðili hafði dreift á spjallforritum. Myndirnar, sem fylgja fréttinni, sendi Páll Óskar í samtali á stefnumótaforritinu Grindr fyrir um það bil einu og hálfu ári og stuttu síðar voru þær komnar í dreifingu á internetinu. 

„Slæ vopnin úr höndunum á honum“

„Mér líður miklu betur eftir að hafa sett þetta út, nú er þungu fargi af mér létt,“ segir Páll Óskar í samtali við fréttastofu. „Ég ákvað að snúa vörn í sókn og með því að birta myndirnar á Instagram og Facebook slæ og vopnin úr höndunum á þeim sem gerði þetta,“ segir hann.

Páll Óskar man eftir því að hafa átt í samtali við mann sem fór vel af stað. Hann segir að maðurinn hafi stungið upp á því að þeir skiptust á myndum og sjálfur sent nokkrar myndir sem hann sagði að væru af sér sjálfum. „Um leið og ég sendi myndir þá hvarf prófíllinn. Mér leið dálítið eins og ég hefði hlaupið 1. apríl. Þetta er vafalaust trikkið hjá þeim sem hafa einbeittan brotavilja, að um leið og þeir eru komnir með það sem þeir vilja, þá loka þeir á öll samskipti,“ segir hann.

Í Facebook- og Instagram-færslu minnir Páll Óskar á lög sem nýlega voru samþykkt á Alþingi og tóku gildi í byrjun árs og banna dreifingu myndefnis af kynferðislegum toga af öðru fólki. „Ef ég vissi hver gerandinn er, þá myndi ég kæra,“ segir hann. 

Neita að vera í vörn

„Það sem mér finnst þetta ganga út á eru völd. Viðkomandi heldur að hann hafi eitthvað vald yfir mér vegna þess að hann er með myndir af mér. Og það er vald sem ég ætla ekki að gefa þessum geranda,“ segir Páll Óskar. „Ég hef ekki haft neinar áhyggjur af þessu enda skammast ég mín ekkert fyrir þessar myndir, og ég skammast ég mín ekkert fyrir mig, að neinu leyti. Ef hann er að reyna að fá mig til að skammast mín fyrir að hafa líkama og lifa kynlífi, þá er hann 30 árum of seinn,“ segir hann. 

Hann minnir á að ýmsir hafi lent í tilfellum sem þessum, verr en hann sjálfur: „Að snúa svona vörn í sókn, ég tel að það sé það besta sem hægt er að gera. Ég neita að vera í vörn.“

Rólegur í maganum

Páll Óskar segist aldrei hafa lent í neinu þessu líku áður og að reyndar hafi hann aldrei sent myndir af sér á netinu sem séu þannig að þær megi alls ekki fara í dreifingu. „Þess vegna er ég alveg rólegur í maganum. Ég hef sett mér reglur inni á internetinu.“ 

Aðspurður segist hann hafa ákeðið að birta myndirnar eftir að hann fékk símtal frá fjölmiðli í gær sem hefði sagst hafa myndirnar undir höndum og spurt hvort hann vildi segja eitthvað um þær. Þá hafi hann fengið nóg og áttað sig á því að það besta sem hann gæti gert væri að birta þær sjálfur. Sér hafi líka fundist vert að minna þá sem sjá fyrir sér að birta myndir af öðrum á netinu að nú varði það við lög.  

Myndirnar eru birtar í samráði við Pál Óskar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Páll Óskar - Páll Óskar Hjálmtýsson
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV