Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir vanhugsað að lækka hámarkshraða í borginni

17.04.2021 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir vanhugsað að lækka hámarkshraða á götum borgarinnar líkt og tillaga meirihluta skipulags- og samgönguráðs felur í sér. Nær væri að hreinsa göturnar og draga úr nagladekkjanotkun.

Tillagan var afgreidd í vikunni og felur í sér að hámarkshraði mun lækka úr fimmtíu niður í fjörutíu kílómetra á klukkustund á stofnleiðum í borginni, og að langstærstum hluta innan íbúðarhverfa og á vistgötum verður hámarkshraði þrjátíu eða lægri. Með þessu á að auka  loftgæði og fækka slysum. Þessar breytingar munu kosta um einn og hálfan milljarð.

Hugnast ekki að hægja á

Samkvæmt íslenskri rannsókn á þetta að minnka svifryksmengun um 40 prósent. Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu greiddu atkvæði gegn tillögunni og einn sat hjá. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir tillöguna vanhugsaða og auki þann tíma sem fólk er úti í umferðinni með tilheyrandi kostnaði.

„Við höfum talið að það eigi að taka fast á svifryksmálum og vorum meðal annars með tillögu í borgarstjórn fyrr á þessu ári um það að þeir sem eru á nagladekkjum greiddu hærra fyrir að leggja í borgarlandinu. Það hefur ekki verið afgreitt í borginni. Í tíð núverandi meirihluta hefur nagladekkjanotkun aukist. Svo er það hitt að það þarf að þrífa göturnar, og það er bara gert tvisvar á ári varðandi flestar götur, og það er of lítið,“ segir Eyþór.

Nær að minnka nagladekkjanotkun

Hann segir borgina hafa farið of hægt í orkuskipti og til að mynda sé borgin að nota meira af eldsneyti á bíla á vegum borgarinnar á milli ára. Hann segir að nær væri að ráðast að rót vandans.

„Það er það að það er malbik sem spænist upp út af nagladekkjum og þungum bílum. Síðan er það mánuðum saman án þess að vera þrifið.Það er aðalatriðið. Hvort að akstur sé hærri eða lægri það hefur áhrif hversu mikið þyrlast upp, en auðvitað á að taka á rótum vandans, og minnka svifrykið og það er það sem við höfum lagt til,“ segir Eyþór.

Hann segir að of illa hafi gengið að draga úr nagladekkjanotkun borgarbúa.

„Borgin hefur ekki náð tökum á þessum vanda, þvert á móti þá eru í seinustu mælingu 40 prósent sem voru á nagladekkjum, en voru um 22 prósent fyrir nokkrum árum og þarna vantar tvennt, annars vegar fræðslu sem er markviss um að nota þau ekki og svo hitt að þeir sem ekki eru á nagladekkjum fái íviljanir og við höfum lagt það til að þeir sem ekki eru á nagladekkjum fengju lægra gjald í stöðumæla. Það hefur ekki verið gert af hálfu borgarinnar. Svo það vantar bæði gulrót og fræðslu,“ segir Eyþór.