Rannsókn á Laugalandi á að ljúka í desember

Mynd með færslu
 Mynd: Barnaverndarstofa - RÚV
Félagsmálaráðuneytið gerir ráð fyrir að rannsókn á meðferð kvenna sem dvöldu á meðferðarheimilinu Laugalandi á árunum 1997-2007 ljúki í desember. Konurnar hafa lýst illri meðferð, andlegu og líkamlegu ofbeldi á heimilinu, sem áður bar heitið Varpholt.

GEF aflar gagna um Laugaland

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hitti nokkrar kvennanna á tveimur fundum í vetur og fól í kjölfarið Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) að rannsaka starfsemi meðferðarheimilisins Laugalands. Verkefni GEF er að kanna hvort stúlkur sem vistaðar voru á Laugalandi hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu er rannsókn GEF nú farin af stað og stofnunin byrjuð að afla gagna um málið.

Konurnar hafa lýst því í viðtölum við Stundina að Ingjaldur Arnþórsson, sem rak heimilið á árunum 1997 til 2007 með þjónustusamningi við Barnaverndarstofu, hafi meðal annars sparkað í þær, hent þeim niður stiga, dregið þær á hárinu og slegið þær utan undir. Hann hafi beitt óttastjórnun og andlegu ofbeldi.

Sögðu meðferð máls ekki í samræmi við loforð

Stundin greindi frá því 22. mars að rannsóknin væri ekki hafin og að Barnaverndarstofa hefði ekki sent GEF nauðsynleg gögn, rúmum mánuði eftir að ráðherra fól stofnuninni að hefja rannsóknina. Konurnar sem stigu fram gagnrýndu það harðlega í vikunni að þær hefðu hvorki fengið svör frá GEF né ráðherra um framgang rannsóknarinnar: 

„Fyrir samþykki tillögunnar höfðum við átt tvo fundi með Ásmundi og aðstoðarmanni hans, Sóleyju Ragnarsdóttur lögfræðingi, sem við vorum allar sáttar með. Við upplifðum að þeim væri umhugað um mál okkar og einlægur vilji væri til þess að rannsaka það af alvöru.  Ásmundur tók það sérstaklega fram  að við gætum haft samband við sig, eða Sóleyju, hvenær sem væri í þessu ferli og óskað eftir fundi eða upplýsingum. Núna tæpum tveimur mánuðum síðar hefur engin okkar heyrt neitt frá GEF, að frátöldu svari við tölvupósti sem ein af okkur sendi,“ segir í yfirlýsingu sem tólf konur sendu frá sér í vikunni. 

„Það er reiðarslag fyrir okkur sem höfum staðið í þessari baráttu, séð okkur knúnar til þess að fara með mjög persónuleg mál fram fyrir alþjóð í þeirri von að á okkur verði hlustað, okkur trúað og að við fáum það ofbeldi sem við máttum sæta viðurkennt,“ sagði jafnframt í tilkynningunni og þar lýstu þær óánægju yfir því að ekki hefði verið stofnað sérstakt teymi innan GEF til þess að sjá um rannsóknina.

„Við konurnar sem vorum beittar ofbeldi á meðferðarheimilinu sjáum ekki betur en að meðferð málsins sé ekki í neinu samræmi við þau loforð sem okkur voru gefin,“ skrifuðu þær. 

Niðurstöður verði nýttar til aðgerða, ef þarf

Í svörum félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að rannsóknin sé nú hafin og að samkvæmt verkáætlun GEF sé áætlað að henni ljúki í desember. Ráðherra hafi tryggt GEF fjármagn til þess að vinna rannsóknina og komið þeim tilmælum til stofnunarinnar að vinna hana eins hratt og mögulegt væri en jafnframt lagt áherslu á að vandað yrði til verka.

Þá segir að þegar niðurstaða rannsóknar liggi fyrir verði hún skoðuð með aðstoð sérfræðinga í málaflokknum. Of snemmt sé að segja til um það hvað verði gert við þær upplýsingar sem koma út úr rannsókninni. Niðurstöðurnar verði teknar alvarlega og þær nýttar til þess að meta hvaða aðgerða, ef einhverra, þarf að grípa til í framhaldinu.