Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

NASA valdi Space X til samstarfs um mannaða tunglferð

17.04.2021 - 04:24
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bandaríska geimferðastofnunin NASA stefnir að mannaðri tunglferð árið 2024 og hefur valið fyrirtæki milljarðamæringsins Elons Musks, Space X, til að byggja flaugina sem nota á í leiðangrinum.

NASA ætlar að senda tvo menn til tunglsins á næstu árum. Stofnunin efndi til samkeppni og útboðs í tengslum við smíði flaugarinnar og hafði Space X betur en til að mynda Blue Origin, sem er í eigu Jeffs Bezos, stofnanda og aðaleiganda Amazon, og vopna- og hátæknifyrirtækið Dynetics.

Kostnaður við byggingu flauganna er áætlaður um 24 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði um 3.000 milljarða króna.

NASA kemur geimförunum út í geim en Space X flytur þá áfram til tunglsins

Áætlun NASA, sem unnin er í samstarfi við Geimvísindastofnun Evrópu, gerir ráð fyrir að stofnunin sjái sjálf um að koma geimförunum út í geim en Starship-flaug Space X muni síðan flytja þá áfram til tunglsins, þar sem ætlunin er að þeir verði við rannsóknarstörf í viku eða svo.

Ríkisstjórn Donalds Trumps setti sér og NASA það markmið að koma mönnuðum leiðangri til tunglsins ekki síðar en 2024. Deilt var um hversu raunhæft það markmið væri, en Stever Jurczyk, starfandi forstjóri NASA, sagði á fréttamannafundi í gær að gangi allt að óskum geti vel farið svo að þetta takist einmitt árið 2024.

Allar Starship-tilraunaflaugar hafa sprungið

Starship-flaugin er hönnuð fyrir lóðrétt flugtak og lendingu og á að nýtast í marga leiðangra, líkt og geimskutlur NASA á sínum tíma. Fjórar fyrstu tilraunirnar með flaugarnar hafa hins vegar endað með ósköpum því þær hafa allar sprungið í eða skömmu eftir flugtak eða lendingu.

Hvort það er þess vegna sem NASA hyggst sjá um það sjálft að koma mannskapnum frá Jörðu og út í geim kom ekki fram í máli Jurczyks. Aftur á móti eru gerðar kröfur um það í útboðsgögnum NASA að senda þurfi flaugina ómannaða til tunglsins og til baka til að sannreyna að allt virki eins og vera ber, áður en lagt er upp í mannaða leiðangurinn.

Nær hálf öld er liðin frá því að menn stigu síðast fæti á tunglið. Það gerðu þeir Eugene Cernan og Harrison í desember 1972.