Biðja Brasilíukonur að fresta barneignum vegna COVID-19

17.04.2021 - 05:58
epaselect epa09139937 Patients are treated for Covid-19, at the Pedro Dell Antonia Municipal Campaign Hospital, in Santo Andre, SP, Brazil, 15 April 2021 (issued 16 April 2021). For the first time since the start of the coronavirus pandemic, people under 40 years of age are the majority among patients admitted to ICUs in Brazil, a country that is experiencing a second wave more virulent and lethal than the first, with an average of 3,000 deaths per day.  EPA-EFE/Sebastiao Moreira ATTENTION EDITORS: FACES PIXELATED BY SOURCE
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Heilbrigðisyfirvöld í Brasilíu hvöttu í gær konur til að setja allar áætlanir um barneignir á ís þar til heimsfaraldur kórónaveirunnar fer að láta undan síga þar í landi. Í erindi heilbrigðisyfirvalda segir að brasilíska afbrigði kórónaveirunnar, hið svonefnda P1-afbrigði, sem herjar grimmt á brasilísku þjóðina um þessar mundir, virðist leggjast af meiri þunga á barnshafandi konur en önnur afbrigði veirunnar.

Farsóttin geisar nú óvíða heitar en í Brasilíu og þar deyja fleiri úr COVID-19 á degi Sjúkrahús eru flest komin að þolmörkum og gjörgæslurými og nauðsynleg lyf víða að þrotum komin.

Alvarleg veikindi fyrr á meðgöngunni en áður

„Ef það er mögulegt á annað borð, frestið þá barneignum aðeins þar til betur stendur á,“ sagði Raphael Parente, talsmaður heilbrigðisráðuneytisins á fréttamannafundi í gær. H

ann sagði tilmælin að hluta gefin út vegna yfirálagsins sem nú sé á heilbrigðiskerfinu, en meginástæðan væri þó hin aukna áhætta sem fylgir brasilíska afbrigðinu, sem rannsóknir hafi sýnt að leggist þyngra á þungaðar konur en fyrri afbrigði og það fyrr á meðgöngunni.

Til skamms tíma, sagði Parente, þá hefðu COVID-19 smit lagst þyngst á konur á síðasta þriðjungi meðgöngunnar, þar sem fóstrin hafa náð mestum þroska. Upp á síðkastið hafi aftur á móti komið upp fleiri alvarleg tilfelli meðal þungaðra kvenna á öðrum þriðjungi meðgöngu, þegar fóstrin eru viðkvæmari mun viðkvæmari, og jafnvel strax á fyrsta þriðjungi.

Staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 nálgast 370.000 í Brasilíu og hátt í 14 milljónir manna hafa greinst þar með veiruna sem veldur sjúkdómnum.