Biden heldur sig við flóttamannakvóta Trumps

epa09138218 US President Joe Biden speaks in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, on 15 April 2021. The Biden administration imposed a raft of new sanctions on Russia, including long-feared restrictions on buying new sovereign debt, in retaliation for alleged misconduct including the SolarWinds hack and efforts to disrupt the US election.  EPA-EFE/Andrew Harrer / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BLOOMBERG POOL
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, undirritaði á föstudag tilskipun þess efnis að hleypa skuli að hámarki 15.000 flóttamönnum til Bandaríkjanna á þessu fjárlagaári, og hróflar þar með ekki við ákvörðun forvera síns um þetta mál þrátt fyrir fyrirheit um annað.

Donald Trump skar jafnt og þétt niður hámarksfjölda flóttafólks sem hleypa mætti til landsins. Í fyrra setti hann 15.000 manna hámark fyrir yfirstandandi fjárlagaár, sem er það minnsta frá því byrjað var að setja fasta kvóta þar um.

Biden gagnrýndi Trump harðlega fyrir þessa ákvörðun á sínum tíma og í febrúar gaf hann til kynna að hann hygðist rýmka kvótann og heimila móttöku allt að 62.500 flóttamanna fyrir lok fjárlagaársins, 30. september.

Engar gjörðir hafa þó fylgt þeim orðum og staðfesting Bidens á 15.000 manna hámarkinu nú hefur verið harðlega gagnrýnd af hjálparsamtökum og þungavigtarfólki í þingliði Demókrata.

Bregðast við gagnrýni og draga í land

Svo hvöss var gagnrýnin að forsetaembættið sá sig knúið til að gefa út yfirlýsingu, þar sem fram kemur að þetta sé aðeins bráðabirgðatala, og að tilkynning um endanlega fjölda flóttafólks sem hleypt verði inn í landið það sem eftir lifir fjárlagaárinu verði gefin út 15. maí.

Ólíklegt sé þó að 62.500 manna takmarkinu verði náð þar sem stjórnsýslan í málaflokknum sé enn í molum eftir harkalegan niðurskurð fyrri ríkisstjórnar.

Nær ekki til föru- og flóttafólks við mexíkósku landamærin

Það kvótakerfi fyrir flóttafólk sem hér er til umfjöllunar nær eingöngu til hælisleitenda sem sækja formlega um hæli í Bandaríkjunum áður en þeir koma til landsins. Farið er ítarlega yfir umsóknir þeirra, bakgrunn og aðstæður allar áður en tekin er ákvörðun um hvort þeir uppfylli skilyrðin fyrir því að fá hæli með stöðu flóttamanns.

Sá mikli fjöldi föru- og flóttafólks sem kemur gangandi eða akandi frá Rómönsku Ameríku og sækir um hæli á landamærunum er hins vegar ekki inni í þessum kvóta. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV