22 börn og starfsfólk í leikskólanum Jörfa í sóttkví

17.04.2021 - 10:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmaður í leikskólanum Jörfa í Reykjavík greindist með COVID-19 í gær og öll börn og starfsmenn á deildinni Hlíð, og allir stjórnendur leikskólans, eru í sóttkví. Alls eru 22 fimm ára börn á deildinni og Bergljót Jóhannsdóttir leikskólastjóri segir að samkvæmt tilmælum rakningarteymisins eigi fjölskyldur barnanna og starfsfólksins líka að sæta sóttkví. 

Sú sem greindist fór veik heim úr vinnunni á fimmtudag og mætti ekki til vinnu í gær. Bergljót segir að hún sé nú fárveik og hafi ekki hugmynd um það hvar eða hvernig hún smitaðist. 

Hún segir óljóst hvort skólinn verði starfhæfur næstu vikuna, enda séu allir stjórnendur í sóttkví eftir að hafa hitt starfsfólkið á fundi. Hún vinni nú í því að koma upplýsingum til foreldra og starfsfólks.