Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umferð um Hringveginn jókst nokkuð í marsmánuði

16.04.2021 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Umferð um Hringveginn í nýliðnum marsmánuði reyndist sú þriðja mesta frá upphafi mælinga. Fleiri voru ferðinni á öllum landssvæðum en á sama tíma fyrir ári, fjölgunin er mest á Norðurlandi en minnst á Suðurlandi. Umferð um Hringveginn í mars jókst um nærri 23% milli ára.  

Þetta kemur fram í samantekt Vegagerðarinnar og að frá áramótum hafi umferð að jafnaði aukist um 7%. Umferðin hefur þó dregist saman á Suðurlandi það sem af er ári og í mars nemur munurinn 16,8% sem talið er að megi rekja til samdráttar í ferðamennsku.

Á Norðurlandi jókst umferðin í mars um tæp 35% en mesta aukning á einstaka leið var um Holtavörðuheiði eða 46,3%. Allir teljarastaðir utan tveir, Mýrdalssandur og vestan Hvolsvallar, sýna meiri umferð en var fyrir ári.

Þessi aukning er í takt við meiri umferð í sama mánuði á höfuðborgarsvæðinu, enda fyrsta bylgja kórónufaraldurs í fullum gangi á þessum tíma á síðasta ári.

Umferð hefur aukist mest á sunnudögum eða um 16,8% en minnst eða um 2,5% á miðvikudögum.