Söngvaskáld kveður

Mynd með færslu
 Mynd: Rás 2

Söngvaskáld kveður

16.04.2021 - 11:32

Höfundar

Söngur vesturfarans er plata eftir Halla Reynis, hans tíunda og síðasta, en hann lést í september 2019. Bróðir hans, Gunnlaugur, sá til þess að platan kæmist á legg. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Ég er þakklátur fyrir að geta stungið niður penna og talað aðeins um Halla heitinn Reynis í gegnum þessa plötu. Ég varð, eins og íslenski tónlistarbransinn allur, sleginn yfir ótímabæru fráfalli hans fyrir tveimur árum síðan. Ég kynntist honum á þeim vettvangi, tók við hann nokkur viðtöl og rýndi í plötur eftir hann. Halli samdi tónlist í anda söngvaskáldanna; í honum mátti heyra Bubba, Hörð, Sigga Björns og öll þessi íslensku söngvaskáld sem eru með puttana í vísnatónlist Skandinavíu en einnig blúsaðri gerðinni frá Ameríku og þeirri alþýðuskotnu frá Englandi. Halli gerði þetta vel og það var eins og hans rétti og góði innri maður væri þar frjáls. Tónlistin látlaus, einlæg og ekta; tónninn mjúkur, hlýr og grandvaralaus.

Söngur vesturfarans er beint framhald af lokaverkefni Halla í meistaranámi hans við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Verkefnið var m.a. í formi söngleiks þar sem sögð var saga vesturfaranna sem fluttu frá Íslandi og vestur um haf í kringum aldamótin 1900. Til stóð svo að vinna heila plötu upp úr söngleiknum og samanstendur þetta verk m.a. af vinnuupptökum frá 2017 en Halli hugðist svo vinna þær áfram í hljóðveri. Gulli, tvíburabróðir hans, fór svo í að loka verkefninu og fljótt kom í ljós að vinnuupptökurnar voru nothæfar og vel það en þar má heyra Halla syngja og leika á gítar. Jóhann Ásmundsson fékk það verkefni að stjórna upptökum ásamt því að spila og útsetja, Sigurgeir Sigmundsson spilaði á gítara og kom einnig að útsetningum laganna ásamt þeim Vigdísi Jónsdóttur, Erik Quick og Dan Cassidy sem öll lögðu gjörva hönd á plóg.

Tónlistarlega rúllar platan samkvæmt þeirri forskrift sem ég lýsi í upphafi. Og andinn yfir – það er þessi ljúfi andi Halla. Lágstemmt og ljúft en samt, hryggð og angurværð líka. Það er þráður í gegnum plötuna, enda byggð á söngleik/sögu. „Þrællinn“, sem opnar hana, tengir frásögnina við ömurð þá og ósanngirni sem íslenskir kotbændur bjuggu við þessa áratugi fyrir þarsíðustu aldamót. Fólk hleypti heimdraganum, í neyð fremur en að ósk, og allt var þetta frekar ömurlegt þó að rómantískar glætur hafi stundum gert vart við sig þegar þetta er rifjað upp (langamma mín var vesturfari). Halli söng oftlega um hag þeirra undirtroðnu á sínum ferli og gengur því að þessum efnivið eins og völundur ber sig að við smíðar.

Það er dimmt yfir á fyrstu lögunum og maður freistast til að tengja það sumpart við sinnið á okkar manni á þessum tíma. Það má vel vera að tenging sé. Textar eru annars haganlega ortir út í gegn og verkið líður fallega áfram, smekklega skreytt af þeim aðstandendum Halla sem nefndir hafa verið. Söngvaskáld kveður á Söng vesturfarans sem á eftir að reynast hinn prýðilegasti bautasteinn. Takk fyrir tónlistina Halli. Þú stóðst þig vel.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Halli Reynis - Söngur vesturfarans

Tónlist

Demó-upptökur Halla Reynis reyndust mikill fjársjóður

Popptónlist

Söngvaskáld í sællegum gír