Rukkað fyrir bílastæði á Akureyri í lok sumars

16.04.2021 - 10:14
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að tekin verði upp gjaldskylda á bílastæðum í miðbæ Akureyrar. Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi í lok sumars.

Síðustu ár hafa bílastæðaklukkur gilt í miðbænum í stað stöðumæla og klukka í bílnum sýnt hvenær bílnum var lagt í stæðið. Þannig hefur verið heimilt að leggja frítt frá 15 mínútum upp í 2 klukkustundir. Auk þess hafa bíleigendur getað keypt fasta leigu á ákveðnum stæðum.

Verkefnahópur á vegum bæjarins hefur undanfarna mánuði undirbúið breytingar á þessu, meðal annars til að stuðla að bættri nýtingu bílastæða í miðbænum.

Tillögur tillögur hópsins fela í sér að tekin verði upp tvö gjaldsvæði þar sem í dag eru gjaldfrjáls klukkustæði. Tími gjaldskyldu verði að mestu sá sami og núverandi gildistími klukkustæða og markmiðið sé að nýting bílastæða verði um 85%. Þá verður gjald fyrir fastleigustæði hækkað og innheimt gjald fyrir bílastæðakort.

„Meirihluti bæjarráðs samþykkti innleiðingu á gjaldskyldu og fól bæjarlögmanni og sviðsstjóra fjársýslusviðs að útfæra tillögur að breytingum á samþykktum, gjaldskrá og reglum sem þarf í tengslum við innleiðinguna. Þessar tillögur verða síðan lagðar fram til staðfestingar og samþykktar í bæjarráði og bæjarstjórn,“ segir í bókun á fundi bæjarráðs í gær.