Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Krefjast þess að Ísland hætti afskiptum af málum Kína

16.04.2021 - 17:22
Erlent · Innlent · Kína · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kínverska sendiráðið á Íslandi hefur birt harðorða yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem þess er krafist að Ísland virði fullveldi Kína og hætti afskiptum af innanríkismálum þar.

Vísir greindi fyrst frá yfirlýsingunni sem kemur í kjölfar þess að lögmaðurinn Jónas Haraldsson var settur á svartan lista í Kína vegna gagnrýninna blaðaskrifa í Morgunblaðið.

Í yfirlýsingunni er Ísland sagt fylgja Evrópusambandinu að málum sem hafi sett viðskiptaþvinganir á Kína sem séu byggðar á eintómum lygum og upplýsingaóreiðu. Í mars tilkynntu ESB og Bretar nýjar viðskiptaþvinganir gegn Kína fyrir mannréttindabrot gegn Úígúrum, minnihlutahópi í Xinjiang-héraði sem flestir eru múslimar. Talið er að yfir milljón þeirra hafi verið lokuð inn í fangabúðum og sæti meðferð sem mannréttindasérfræðingar hafa kallað lýðfræðilegt og menningarlegt þjóðarmorð.

Kínversk stjórnvöld kalla þær endurmenntunarbúðir. Þau sem þar hafa dvalið lýsa að þeim hafi verið bannað að tala tungumál sitt og konur jafnvel neyddar í ófrjósemisaðgerð. 

„Við krefjumst þess að Ísland virði fullveldi Kína og hætti að blanda sér í innanríkismál landsins undir því yfirskini að það sé gert í nafni mannréttinda,“ segir í yfirlýsingunni.