Konur frekar í foreldrahúsum en karlar

16.04.2021 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hlutfall kvenna, 18 ára og eldri, sem býr í foreldrahúsum er marktækt hærra en hlutfall karla. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er í samræmi við mælingar síðasta árs. Alls búa 14,3 prósent kvenna yfir 18 ára hjá foreldrum sínum en 8,5 prósent karla. 

Karlar eru einnig líklegri til að búa í eigin húsnæði en konur: 69,2 prósent kvenna segjast búa í eigin húsnæði en 76,1 prósent karla. Þó mældist ekki marktækur munur á kynjunum á leigumarkaði eða í öðru búsetuformi.

Fólk á landsbyggðinni er þó nokkuð ólíklegra til að búa hjá foreldrum sínum en fólk á höfuðborgarsvæðinu: 7,1 prósent á móti 13,8 prósentum. Á landsbyggðinni búa einnig hlutfallslega fleiri í eigin húsnæði heldur en á höfuðborgarsvæðinu: 77,7 prósent á móti 69,9 prósentum. En hlutfallið á leigumarkaði er svipað á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.  

„Líklegt er að hluti þeirra sem býr í foreldrahúsum færi sig yfir á leigumarkað á næstu mánuðum, sérstaklega í ljósi þess að leiguverð fer lækkandi á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslunni. 

15,8 prósent landsmanna telja það öruggt eða líklegt að þeir verði á leigumarkaði eftir hálft ár. Það er hærra en hlutfall þeirra sem segjast nú þegar vera á leigumarkaði og því má búast við að það fjölgi á leigumarkaði eftir hálft ár.