„Hópurinn er mjög flottur núna“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Hópurinn er mjög flottur núna“

16.04.2021 - 16:00
Landsliðskonan Karen Knútsdóttir segir að hvert mark muni telja þegar Ísland mætir Slóveníu ytra í fyrri leik umspilsins um HM-sæti á morgun.

„Þetta er bara mjög gott og vel spilandi lið. Þetta eru stelpur sem eru búnar að vera á þessum stórmótum undanfarin ár og í Meistaradeildinni. Auðvitað eru þjálfaraskipti en þetta er góður þjálfari sem þær eru að fá,“ segir Karen Knútsdóttir en Karen er með reynslumeiri leikmönnum íslenska liðsins.

Karen segir að íslenska liðið megi ekki missa einvígið úr höndum sér á upphafsmínútunum á morgun. 

„Það er bara gríðarlega mikilvægt að drepa niður tempóið. Spila skynsaman sóknarleik og ná að keyra til baka. Koma heim með góð úrslit. Við erum kannski svolítið brenndar á því að fyrir tveimur árum vorum búnar að tapa því einvígi á fyrstu fimmtán mínútunum. Þetta eru tveir leikir og úrslitin skipta miklu máli, hvert mark telur og við förum skynsamlega inn í þennan leik á morgun.“

Steinunn Björnsdóttir og Sunna Jónsdóttir eru meiddar og geta því ekki tekið þátt í umspilsleikjunum. Karen, sem sneri aftur á völlinn fyrr á árinu eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn, segir það vissulega erfitt að missa út góða leikmenn en að hópurinn sé verulega góður.

„Síðan ég kom inn í hópinn í febrúar finnst mér vera góður andi í liðinu, Addi búinn að koma með mjög gott skipulag. Öll hlutverk og allar vinnureglur eru skýrar, mér finnst líka leikmenn vera að taka skref fram á við og taka ábyrgð, tjá sig meira og mynda meiri liðsheild. Auðvitað var erfitt að missa bæði Steinunni [Björnsdóttur] og Sunnu [Jónsdóttur] út í því verkefni en það eru aðrar stelpur sem eru búnar að koma inn og taka sínum hlutverkum vel og alvarlega. Hópurinn er mjög flottur núna.“

Leikur Slóveníu og Íslands verður í beinni útsendingu á RÚV á morgun. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 15:00.