Glódís og Sveindís á meðal þeirra bestu í Svíþjóð

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Glódís og Sveindís á meðal þeirra bestu í Svíþjóð

16.04.2021 - 11:07
Landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru á meðal 32 bestu leikmanna sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Sveindís er í 23. sæti listans þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað leik í deildinni.

Það er sænska fótboltasíðan Fotbollskanalen sem tekur listann saman. 

Glódís Perla, leikmaður Rosengård, er í 20. sæti listans. Þar segir að hún sé sterkur skallamaður og afar mikilvægur leikmaður Rosengård og íslenska landsliðsins. 

Sveindís Jane fer rakleiðis í 23. sæti listans en Sveindís á enn eftir að spila fyrir Íslendingalið Kristianstad. Sveindís fór mikinn þegar Ísland og Svíþjóð gerðu 1-1 jaftnefli í undakeppni EM og segir Fotbollskanalen að hún hafi verið einn besti leikmaður vallarsins. Þá hafi Gautaborg og Rosengård barist um að fá hana til sín en að hún hafi gengið til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg og þaðan verið lánuð til Kristianstad. Hraðinn er hennar sterkasta vopn segir í umsögninni. 

Sænska landsliðskonan Caroline Seger er í efsta sæti listans en hún er samherji Glódísar hjá Rosengård. Jannier Falk, markmaður Håcken og sænska landsliðsins, er í 2. sætinu og Anna Anvegård hjá Rosengård, framherji Svía, er í þriðja sætinu. 

Therese Åsland, Josefine Rybrink, Evelina Summanen og Jutta Rantala leika allar undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur hjá Kristanstad og þær komast einnig á listann.