Vaxandi suðaustanátt og rigning í kortunum

15.04.2021 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veðurstofan spáir vaxandi suðaustanátt í dag, víða 13 til 20 metrum á sekúndu eftir hádegi. Það verður rigning um landið sunnan- og vestanvert, og sums staðar talsverð rigning, einkum á Suðausturlandi.

Norðaustantil á landinu verður hins vegar víðast hvar úrkomulítið, en þó eru líkur á dálítilli vætu við ströndina. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Á morgun bá búast við sunnan- og suðvestan 13 til 18 metrum á sekúndu og rigningu og síðar skúrum, en léttskýjað verður um landið norðaustanvert. Hiti verður á bilinu þrjú til sjö stig, en sjö til 14 stiga hita er spáð á Norður- og Austurlandi.

Síðdegis dregur svo úr vindi og kólnar, og þá má búast við slydduéljum norðvestantil á landinu.

Spá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir suðaustan 15 til 20 metrum á sekúndu við  gosstöðvarnar í dag. Gasmengun leggur því yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga. Athugið að vegna veðurs er lokað fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum í dag. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV