Svefnlyfjanotkun barna í hæstu hæðum

15.04.2021 - 20:44
Mynd: Skjáskot / RÚV
Kórónuveirufaraldurinn virðist hafa haft talsverð áhrif á svefnvenjur krakka í 8. til 10. bekk grunnskóla. Í október fengu 36 prósent krakka á þessum aldri of lítinn svefn og hafði hlutfallið ekki verið lægra í átta ár. Í febrúar fóru hins vegar allt á versta veg aftur því þá sváfu 44 prósent nemenda of lítið. „Þarna er spurning hvort úthaldið sé farið að minnka og farið að bera á aukinni streitu og auknum áhyggjum,“ segir Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur.

Erla var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hún fór yfir svefn og svefnvenjur Íslendinga.

Hún segir það enga sér-íslenska hefð að stæra sig af litlum svefni.  Hennar tilfinning er að fólk sé að verða meðvitaðra um mikilvægi svefns. „Það var oft dyggð að sofa lítið og talið til marks um atorku. Þetta er sem betur fer deyjandi mýta.“ Mikilvægi svefns hafi verið vanmetið en nú hafi orðið vitundarvakning.

Erla fór í þættinum yfir nýlegar tölur um svefn barna í 8. til 10. bekk grunnskóla. Það er nokkuð stöðugt að þessi aldurshópur sefur of lítið og hlutfallið hefur lítið breyst frá því að mælingar hófust fyrir átta árum.

Á því varð hins vegar breyting í október 2020 þegar þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins var í fullum gangi.  Þá fengu fleiri börn nægan svefn en árin á undan eða 36 prósent. Fátt var um að vera fyrir börnin á þessum tíma enda íþrótta-og tómstundastarfi settar þröngar skorður. 

Í febrúar á þessu ári fóru hlutirnir hins vegar aftur í sama farið en þá sváfu 44 prósent barna ekki nóg. Líkt og í október var fátt um að vera og Erla velti því upp hvort þarna hefði úthaldið farið að minnka, aukin streita gert var um sig og auknar áhyggjur. „Því þarna er stór hópur sem er farin að sofa of lítið.“

Hún segir að í kórónuveirufaraldrinum hafi aðsókn í svefnráðgjöf stóraukist, sérstaklega hjá ungu fólki framhaldsskóla og háskóla.

Erla bendir á að börn sem sofi lítið meti heilsu sína yfirleitt verri. Hún beinir því til foreldra að tala á jákvæðari nótum um svefninn. „Við gerum oft vökuna spennandi. Við þurfum að vera meðvituð um orðræðuna um svefn og hafa hana jákvæða. Að það sé jákvætt að fara snemma sofa.“

Erla fór einnig yfir svefnlyfjanotkun barna sem hefur aukist ár frá ári og miðað við tölur frá síðasta ári var algjört met sett í notkun þeirra á síðasta ári. „Það eru mörg börn sem glíma við svefnvanda og lyfin eru því miður oft fyrsti kostur. Þetta er margþættur vandi og oft höfum við ekki tök á því að takast á við hann og þá er oft auðvelt að fá svefnlyf.“

Viðtalið við Erlu í heild sinni má sjá hér að ofan.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV