Norðmenn tilkynna ákvörðun um Astrazenca í dag

15.04.2021 - 11:12
epa09029496 A pharmacist prepares the Oxford/AstraZeneca Covid19 vaccine at an NHS vaccination centre in Ealing, west London, Britain 22 February, 2021. Britain's Prime Minister Johnson has pledged that all adults in the UK will be offered a coronavirus jab by the end of July. Johnson is to announce his four-part plan to lift the UK coronavirus lockdown on 22 February 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisyfirvöld í Noregi hafa boðað til blaðamannafundar klukkan tvö í dag. Þar verður tilkynnt um næstu skref þar í landi varðandi bóluefni Astrazeneca.

Norðmenn hafa ekki notað bóluefni Astrazeneca síðan 11. mars. Þann 26. var svo ákveðið að það yrði ekki notað að minnsta kosti til dagsins í dag. Í gær tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í Danmörku að þau væru hætt að nota Astrazeneca, meðal annars vegna þess að þeirra rannsóknir sýndu að einn af hverjum 40.000 gæti fengið blóðtappa. Rannsóknir í Noregi benda til þess að blóðtappar gætu verið enn algengari aukaverkun þar, eða hjá einum af hverjum 27.000. Þar hafa fimm heilbrigðisstarfsmenn fengið blóðtappa eftir að þau voru bólusett með bóluefni Astrazeneca, fjórar konur og einn karlmaður - öll á aldrinum 32 til 54 ára. Þrjú þeirra eru látin og tvö enn á spítala. Þá er fjórða dauðsfallið sem gæti tengst bóluefninu til rannsóknar. 

Upplýsingar stöðugt að breytast

Í Bretlandi virðast tilfelli blóðtappa mun sjaldgæfari, þeir finnast í einum af hverjum 600.000. Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir og prófessor segir ekki útilokað að íbúar Norðurlanda geti verið næmari fyrir aukaverkunum af völdum bóluefnis AstraZeneca. „Upplýsingarnar sem við erum að byggja ákvarðanir á þær eru stöðugt að breytast. Og í annan stað þá hafa menn núna verið að velta svolítið fyrir sér hvort áhættan kunni að vera að einhverju leyti mismunandi eftir löndum. Og það er rannsókn frá Noregi sem að bendir einmitt til þess að þessi tiltekna afskaplega sjaldgæfa aukaverkun kunni að vera algengari þar. Og það vekur þá spurningar hvort að það séu einhverjir sérstakir þættir í okkur sjálfum, erfðaþættir til dæmis eða eitthvað slíkt sem að gera okkur íbúa Norðurlandanna hugsanlega eitthvað aðeins næmari fyrir þessari aukaverkun. Þetta eru bara vangaveltur,“ sagði Magnús í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.