Leikur Stjörnunnar og KA/Þórs verður endurtekinn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Leikur Stjörnunnar og KA/Þórs verður endurtekinn

15.04.2021 - 12:55
Leikur Stjörnunnar og KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta verður spilaður aftur. Endurskipaður áfrýjunardómstóll staðfesti fyrri dóm dómstólsins.

Akureyri.net greinir frá þessu í dag en KA/Þór vann Stjörnuna í Garðabæ 27-26, þrátt fyrir að norðankonur hafi aðeins skorað 26 mörk. Í hálfleik hafði einu marki verið bætt við hjá KA/Þór á ritaraborðinu og mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en eftir leik. Stjarnan kærði þá úrslit leiksins en dómstóll HSÍ vísaði kröfu félagsins frá. Áfrýjunardómstóll HSÍ sneri dómnum hins vegar við og féllst á kröfu Stjörnunnar um að leikurinn skyldi spilaður aftur.

KA/Þór óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir á ný hjá áfrýjunardómstólnum en skipan hans yrði önnur. Áfrýjunardómstólinn hefur nú staðfest fyrri niðurstöðu dómstólsins og því þarf að endurtaka leikinn.

KA/Þór er með eins stigs forskot á toppi deildarinnar en Stjarnan er í 6. sæti.